Tálknafjörður: Vegagerðin ræðir við sveitarfélagið seinna

Vegagerðin hefur boðið út framkvæmdir við veg og brú yfir Botnsá í Tálknafirði.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps samþykkti framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdina með skilyrðum sem ætluð eru  til þess að þrýsta á gerð jarðganga milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar um Mikladal.

Fyrsta skilyrðið var um að Vegagerðin upplýsi sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum  um þær endurbætur sem Vegagerðin hlýtur að hafa skoðað á þessari leið þannig að sveitarfélögin viti hver stefna Vegagerðarinnar er varðandi þennan vegarkafla til framtíðar. Þá er tekið fram að framkvæmdaleyfið gefur engin frekari vilyrði fyrir áframhaldandi vegaframkvæmdum í þessu vegstæði þar sem jarðgöng eru eina skynsamlega framtíðarleiðin milli þessara byggðarlaga.

Loks ætlast sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ætlast til þess af Vegagerðinni að samtal um
jarðgangakost milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar hefjist sem allra fyrst og eigi síðar
en næsta vetur 2020-2021 með það að markmiði að koma jarðgöngum á þessu svæði
inn í samgönguáætlun eins fljótt og mögulegt er.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðrinnar var innt eftir því hvort fallist hafi verið á skilyrði sveitarstjórnar með útboðinu. Hún svaraði því til að Vegagerðin ætti eftir að eiga viðræður við sveitarfélagið.

Ljóst er af þessum svörum að Vegagerðin hefur ekki gengið að skilyrðunum að svo komnu máli.

DEILA