Stöðvun strandveiða yfirvofandi

Óvissa ríkir um framhald strandveiðanna. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssamtaka smábátaeiganda vekur athygli á því að búið er að veiða rúm 7.500 tonn af þorski og segir hann að rífandi gangur sé í veiðunum.  „Þorskafli þá 10 veiðidaga sem búnir eru í júlí er að meðaltali 211 tonn.  Verði það óbreytt þá 8 daga sem eftir eru mánaðarins lýkur veiðum 6. ágúst miðað við ákvæði reglugerðar um að þorskafli fari ekki umfram 10 þúsund tonn.“ segir Örn í pistli á vefsíðu Landssambands samábátaeigenda.

Örn segir að Sjávarútvegsráðherra sé að skoða þá stöðu sem upp er komin m.t.t. þess hvort hægt sé að auka afla til strandveiða svo komast megi hjá veiðistoppi.

Strandveiðisjómenn eru þeirri stöðu að þurfa ákveða að hvort þeir eigi að segja sig frá veiðum í dag mánudaginn þann 20. júlí eða freista þess að stunda strandveiðar í ágúst. Segi þeir sig frá veiðunum (ath. að eftir 20. júlí er það ekki hægt) lýkur strandveiðum hjá þeim 31. júlí og geta þeir þá hafið veiðar í króka- eða aflamarki þann 1. ágúst eða reynt fyrir sér á makríl.

Verði strandveiðar stöðvaðar í ágúst er veiðum á fiskveiðiárinu lokið hjá þeim bátum sem þá eru í strandveiðikerfinu því þá verður ekki verður unnt að skipta yfir í króka- eða aflamarkskerfið fyrir en á nýju fiskveiðiári.

Engar upplýsingar hafa borist enn um hvað ráðherra muni gera til að tryggja veiðar strandveiðibáta út tímabilið.  Reikna má með að upplýsingar þess efnis berist nk. mánudag 20. júlí segir á vefsíðu Landssambands smábátaeigenda.

Svigrúm til staðar

Í grein á visir.is vekur Örn Pálsson athygli á því að sjávarútvegsráðherra hafi sagt að ef svigrún væri til staðar yrði það notað til strandveiða.  Bendir Örn á að heimilað hafi verið að flytja meira af aflaheimildum fiskveiðiársins yfir á næsta ár en gilt hefur og það hafi útgerðarmenn nýtt sér. Fyrir vikið sé útlit fyrir að nærri 10 þúsund tonn af þorski verði ekki veidd á þessu tímabili sem gefi svigrúm til þess að auka veiðiheimildir til strandveiða.

Greinni lýkur Örn með þessum orðum:

„Sjómenn 650 báta bíða nú ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um það hvort þeir verði að binda og hætta veiðum í byrjun næsta mánaðar eða verði heimilt að nýta strandveiðileyfið til ágústloka eins og það er stílað á. Ákvörðun þessa efnis er hjá sjávarútvegsráðherra. Veiðiheimildirnar eru í hendi ráðherra sem á þessum tímapunkti verða best nýttar með veiðum strandveiðibáta til ágústloka.“

DEILA