Samstarfsverkefni landshlutanna um ferðalög innanlands

Markaðsstofur landshlutanna, MAS, ýttu í gær úr vör samstarfsverkefni sem miðar að því að auðvelda og hvetja enn frekar til ferðalaga innanlands. Verkefnið er liður í að auka á dreifingu ferðamanna um landið sem og styðja við uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs. Þetta er langstærsta þróunarverkefni sem MAS hefur tekið sér fyrir hendur.

 

Verkefnið ber yfirskriftina Upplifðu og er sannkölluð stafræn bylting þegar kemur að skipulagningu ferðalaga um Ísland sem og upplýsingagátt um það sem í boði er.

Allar sex Markaðsstofur landshlutanna, Markaðsstofa Norðurlands, Markaðsstofa Vestfjarða, Markaðsstofa Vesturlands, Austurbrú, Markaðsstofa Reykjaness og Markaðsstofa Suðurlands standa að verkefninu.

 

Um er að ræða gagnvirkt vefsvæði, www.upplifdu.is þar sem notendum gefst kostur á að sníða ferðalagið nákvæmlega eftir sínu höfði og fá aðstoð við að sjá hvað er í boði á hverjum stað, fá nákvæma tímaáætlun milli áfangastaða og síðast en ekki síst, uppgötva nýja möguleika á myndrænan hátt.

„Þetta nýja kerfi er lausn sem við hjá Markaðsstofunum höfum lengi verið að kalla eftir og mun einfalda ferðalöngum að skipuleggja ferðir sínar ekki síður en til að veita innblástur fyrir stoppum á ferð um landið. Verkefnið er stærsta samstarfsverkefni Markaðstofanna en það er meðal annars styrkt af Sóknaráætlun Vestfjarða og Ferðamálasamtökum Vestfjarða“, segir Díana Jóhannsdóttir, Markaðsstofu Vestfjarða.

 

Upplifdu.is brýtur þannig blað í sögu upplýsingagjafar til ferðalanga um Ísland en ekki eru fordæmi fyrir viðlíka gagnvirkri síðu með jafn yfirgripsmiklar upplýsingar á fjölmörgum sviðum ferðaþjónustu á Íslandi. Þróun og framleiðsla er í höndum framleiðslustofunnar Tjarnargötunnar og er myndefnið sem prýðir síðuna unnið úr einum stærsta myndabanka sem gerður hefur verið úr efni frá Íslandi.

 

„Nú í sumar mun Upplifðu vera á íslensku en í haust munum við setja enska útgáfu í loftið, jafnframt mun bætast við efni inn í kerfið jafnt og þétt. Það er okkar von að þessi lausn festi sig í sessi og verði náttúrulegur hluti þess að skipuleggja ferðir um landið enda er um að ræða langtímaverkefni“, segir Díana.

Um síðuna

Síðan er einföld í notkun og miðar að því að sem flestir geti nýtt sér hana. Notendur velja sér upphafspunkt ferðalags og geta svo séð hvað er í boði á hverjum þeim stað sem heillar og handvelja hvað skuli heimsækja og hvaða afþreyingu og þjónustu skuli nýta meðan á heimsókn stendur. Hægt er að velja þar til gerðar síur til að auðvelda enn frekar skipulagningu ferðarinnar og eru þær síur þrjár; staðir, afþreying og þemu. Sían staðir nær til að mynda yfir kirkjur, fornminjar, útsýni, gil og gljúfur, jökla og hella. Afþreying yfir baðstaði, hvalaskoðun, matarupplifanir, hjólaferðir, golfvelli, dýragarða ofl. Þemun endurspegla svo tegund ferðar, fjölskylduferð, ævintýraferð, söguslóðir, afslöppun, menningu, dýralíf eða náttúru.

 

Þegar búið er að velja eru óskir ferðalangsins dregnar saman og úr verður heildstæð ferðaáætlun í formi myndbands sem og skjals, sem nær ekki aðeins utan um spennandi ferðalag heldur einnig utan um hagnýta hluti eins og lengd aksturs milli áfangastaða og áætlaðan tíma í hverri afþreyingu.

Sjá enn frekar : www.upplifdu.is

DEILA