Rauði krossinn flytur suður

Framkvæmdastjóri Rauða krossins, Kristín Hjalmtýsdóttir,  tók þá ákvörðun í lok maí að loka öllum svæðisskrifstofum á landsbyggðinni og öllum svæðisfulltrúum var sagt upp störfum. Þetta eru þrjár skrifstofur; skrifstofan á Ísafirði (sem er fyrir Vestfirði og Vesturland) á Norðfirði sem er fyrir Austurland og í Hveragerði sem er fyrir Suðurland. Starfinu verður stýrt frá landsskrifstofu Rauða krossins í Reykjavík.

Starfsmaður Rauða krossins á Ísafirði var Bryndís Friðgeirsdóttir og staðfesti hún  uppsögnina í svari við fyrirspurn Bæjarins besta.

Kristín Hjálmtýsdóttir svaraði ekki fyrirspurnum Bæjarins besta í gær og var gefið upp að hún yrði í sumarleyfi fram í ágúst. Sveinn Kristinsson er formaður Rauða krossins og hann hefur ekki heldur brugðist við fyrirspurn Bæjarins besta.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segist hafa miklar áhyggur af lokun svæðisskrifstofunnar fyrir Vestfirði. “ Ég hef afar góða reynslu af samskiptum við skrifstofuna og Rauða krossinn og get ekki hugsað þá hugsun til enda að hafa ekki haft aðgang að henni þegar covid 19 ástandið var í vetur og eins þegar snjóflóðin féllu á Flateyri.“

Jón Páll sagðist skora á stjórnvöld að gera Rauða krossinum kleift að snúa þessari ákvörðun við.

DEILA