Rauði krossinn: auglýsir nýtt starf neyðarfulltrúa í Reykjavík

Frá starfi Rauða krossins á Patreksfirði.

Rauði krossinn hefur auglýst nýtt starf neyðarfulltrúa. Í auglýsingunni segir að leitað er  að öflugum einstaklingi til að sinna starfi neyðarvarnafulltrúa. Starfstöð er í Reykjavík (Efstaleiti) en starfinu fylgja ferðalög um landið.

Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Sigríður Magnúsdóttir, Önundarfirði, sem er fyrrverandi formaður einnar svæðisdeildar Rauðakrossins á Vestfjörðum segir í færslu á Facebooksíðu sinni að þessi auglýsing komi í kjölfar þess að störf þriggja svæðisfulltrúa á landsbygginni hafi verið lögð niður eins og fyrst var greint frá á bb.is í síðustu viku.

Mikil reiði hjá sjálfboðaliðum

„Það er mjög, mjög mikil óánægja og reiði hjá sjálfboðaliðum, félögum og styrktarþegum í litlu samfélögunum sem hafa getað reitt sig á rauðakrossinn þegar á þarf að halda. Það á eftir að heyrast meira um þetta mál. Svo þyrftu nú formaður og framkvæmdastjóri að fara að koma út úr holum sínum og ræða við fólkið sem það byggir traust sitt á.“

Hvorki Kristín Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri  né Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins  hafa svarað fyrirspurnum Bæjarins besta.

Björg Kjartansdóttir, sviðstjóri hjá Rauða krossinum, segir í samtali við RÚV í gær að þótt störfin hafi verið lögð niður verði að ekki til samdráttar á starfsemi utan höfuðborgarsvæðisins.

Björg var innt eftir því í gær hvort rétt væri að umræddur neyðarfulltrúi ætti að sinna landsbyggðinni og vera staðsettur í Reykjavík, en upplýsingar um það komu ekki fram í frétt RÚV. Engin svör hafa borist enn hvorki frá Björgu né Kristínu né Sveini.

DEILA