Körfuboltabúðum Vestra 2020 aflýst

Í ljósi nýjustu tilskipana yfirvalda vegna Covid-19 hefur Körfuboltabúðum Vestra 2020 verið aflýst. Framkvæmdastjórn búðanna tók þessa erfiðu ákvörðun á fundi í hádeginu í gær í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað í morgun að herða á ný reglur um samkomuhald og sóttvarnir.

Þessi ákvörðun er tekin með miklum trega, segir í tilkynningu frá framkvæmdastjórninni, en hún er engu að síður óumflýjanleg að mati framkvæmdastjórnarinnar. „Með henni axlar deildin þá samfélagsábyrgð sem felst í því að reyna eftir fremsta megni að hefta útbreiðslu Covid-19 veirunnar til þess m.a. að tryggja að skóla- og íþróttastarf geti hafist með eðlilegum hætti seinni hluta ágústmánaðar.

Ákvörðunin er fyrst og síðast erfið vegna allra þeirra iðkenda sem skráðir voru í búðirnar og sáu fram á skemmtilega körfuboltadaga á Ísafirði. Þess utan er niðurfelling búðanna mikið fjárhagslegt áfall fyrir barna- og unglingastarf körfuknattleiksdeildar Vestra, en tekjur af búðunum hafa staðið undir stórum hluta af starfi deildarinnar síðasta áratuginn.“

Tölvupóstur hefur þegar verið sendur til forráðamanna allra skráðra iðkenda og í honum er að finna upplýsingar um endurgreiðslu búðagjaldanna.

Ef frekari upplýsinga er þörf má hafa samband á netfangið korfuboltabudir@vestri.is

DEILA