Ísafjarðarbær: leyfisveiting tafðist hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða

Axel Överby, sviðsstjóri hjá Ísafjarðarbæ bendir á að afgreiðsla á umsókn fyrir gististað í Fjarðarstræti 39 hafi tafist hjá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða.

Bæjarins besta vakti athygli á því í gær að tekið hafi rúma fjóra mánuði að afgreiða erindi Sýslumanns Vestfjarða um umsögn sveitarfélagsins.

Bréf Sýslumannsembættisins er dagsett 6. mars 2020 og er beðið um að umsögn berist sem fyrst og í allra síðasta lagi 20. apríl. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar afgreiðir umsóknina 13. júlí 2020. Axel segir að bæjaryfirvöld séu bundin að því að staðfesta í sinni umsögn að bæði heilbrigðiseftirlit og eldvarnareftirlit geri ekki athugasemdir. Því þurfi að bíða eftir svörum frá þessum aðilum áður en unnt er að afgreiða umsögnina. Slökkviðið sendi sína umsögn 20. apríl. Svar Heilbrigðiseftirlitsins er dagsett 24. júní  og strax daginn eftir, þann 25. júní sendir skipulagsfulltrúi bæjarins bréf til Sýslumannsembættisins. Það hafi því aðeins liðið dagur frá því að umsagnir lágu fyrir þar til embættismenn bæjarins hafi verið búnir að afgreiða það frá sér.

Umsögn skipulagsfulltrúa var svo lögð fyrir bæjarráð 13. júlí og staðfest þar.

Að ofangreindu má sjá að bíða þurfti rúma tvo mánuði eftir umsögn Heibrigðiseftirlits Vestfjarða eftir að slökkviliðið hafði skilað sinni umsögn.

Í minnisblaði til Ísafjarðarbæjar frá Andra Árnasyni lögmanni segir að umsagnir skulu að jafnaði veittar eigi síðar en 45 dögum frá móttöku erindis leyfisveitanda (Sýslumanns) , en berist umsagnir ekki innan þess frests er leyfisveitandi tilgreinir er honum heimilt að gefa út rekstrarleyfi.

Í sama minnisblaði segir um skyldur sveitarstjórnar:

 • Þau atriði sem sveitarstjórn skal staðfesta í umsögn sinni skv. 3. mgr. 10. gr. laganna eru eftirfarandi:
  1. starfsemi sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála,
  2. að lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu,
  3. að afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segja til um,
  4. að starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist,
  5. að kröfum um brunavarnir sé fullnægt skv. mati slökkviliðs.
DEILA