Rekstrartekjur Ísafjarðarbæjar 2019 urðu 5,3 milljarðar króna sem er nærri því sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaðan varð jákvæð um 238 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 83 milljón króna afgangi.
Þetta kemur frá í ársreikningi sveitarfélagsins fyrir 2019.
Skatttekjur voru 2,6 milljarðar króna og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga var 1 milljarður króna. Skatttekjurnar voru einkum útsvarstekjur 2,2 milljarðar króna og fasteignaskattur 330 milljónir króna. Álagningarhlutföll útsvars og fasteiganskatts voru nýtt til fulls og var útsvarsprósentan 14,52% og fasteignaskattur vegna íbúðarhúsnæðis 0,625%.
Laun og tengd gjöld voru stærsti útgjaldaliðurinn og námu um 2,6 milljörðum króna. Í árslok voru 312 stöðugildi hjá sveitarfélaginu og 458 starfsmenn.
Fræðslumál voru stærsti útgjaldaliðurinn og var 1,8 milljörðum króna varið til þeirra.
Til velferðamála var varið tæplega 900 milljónum króna en á móti útgjöldum komu 540 milljóna króna tekjur.
Æskulýðs- og íþróttamál voru þriðji hæsti málaflokkurinn með 635 milljóna króna útgjöld. Tekjur á móti voru 140 milljónir króna. Umferðar- og samgöngumál kostuðu 235 milljónir króna og tekjur á móti voru 5 milljónir króna.
Langtímaskuldir í árslok 2019 voru 5,2 milljarðar króna. Afborganir næsta árs voru áætlaðar um 380 milljónir króna.
Lífeyrisskuldbindingar voru um áramótin um 1,7 milljarðar króna og aðrar skuldir um 1 milljarður króna og voru heildar skuldir því um 7,9 milljarðar króna. Á móti skuldunum standa veltufjármunir um 1,4 milljarðar króna.