Hornstrandir: viljum bæta fjarskiptasambandið

Björgunarskipið Gísli Jóns á siglingu í Skutulsfirði.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að björgunarsveitarmenn vilji bæta fjarskiptasambandið á Hornströndum  auk þess sem hann leggur áherslu á að brýna fyrir göngufólki á svæðinu að hafa með sér búnað til þess að geta komið frá sér skilaboðum. Bendir Davíð þar á talstöð og gervihnattarsíma. Hann segir nauðsynlegt að fólk  búi sig til ferða um Hornstrandirnar í samræmi við þær aðstæður að þar eru mjög slæmt fjarskiptasamband.

 

Í gærkvöldi barst tilkynning frá pari sem var á göngu í svonefndu Þorleifsskarði milli Hlöðuvíkur og Fljótavíkur um að það væri í vanda statt. Að sögn Davíðs er þar samband, en ekki annars staðar nálægt og þegar parið gat af sjálfsdáðum komist niður skarðið var ekkert samband og engin leið að láta vita af sér. Ekkert amaði að göngufólkinu.

Egu að síður fór björgunarskipið Gísli Jóns frá Ísafirði með leitarmenn norður og leituðu þeir í alla nótt að fólkinu og fundu það um kl átta í morgun. Davíð segir að auðvitað sé ekkert annað að gera við þessar aðstæður en að fara og leita að fólkinu.

DEILA