Fiskeldi í Arnarfirði: kæru hafnað

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur hafnað kröfu þriggja landeigenda í Ketildölum í Arnarfirði sem vildu ógilda samþykkt Skipulagsstofnunar á því að stytta hvíldatíma eldissvæða. Stendur því ákvörðun Skipulagsstofnunar sem hafði heimilað þessa styttingu á hvíldartíma eldissvæðis úr 6-8 mánuðum niður í 90 daga.

Arnarlax sótti um breytinguna en fyrirtækið hefur leyfi til sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirðinum og nota þrjú eldissvæði til framleiðslunnar. Er fiskur í tveimur þeirra samtímis en það þriðja er hvílt. Framkvæmdin fór á sínum tíma í umhverfismat og var leyfi til 10.000 tonna framleiðslu gefið út 2016.

Í mars 2019 fór Arnarlax fram á umrædda breytingu. Skipulagsstonfun hafði samráð við Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Hafrannsóknarstofnun  og úrskurðaði í desember 2019 að þessi breyting þyrfti ekki að fara í umhverfismat.

Í niðurstöðu sinni tekur stofnunin fram að ákvörðun hennar snúi eingöngu að því hvort stytting hvíldartíma sé líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér umfram þau áhrif sem vænta megi af óbreyttri framkvæmd. Kemst Skipulagsstofnun að því á grundvelli fyrirliggjandi gagna að svo sé ekki með vísan til viðmiða 1.-3. tl. í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Kærendur voru ósammála og töldu að ákvörðun Skipulagsstofnunar væri ranglega rökstudd og veigamiklir þættir væru ekki hafðir til hliðsjónar við ákvörðunina.

Í niðurstöðu Úrskurðarnefndarinnar segir að ljóst sé að ekki er ætlast til þess að í ákvörðun um matsskyldu, vegna breytingar á framkvæmd sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum, séu metin að nýju umhverfisáhrif hinnar upprunalegu framkvæmdar, heldur einskorðast ákvörðunin við þau áhrif sem breytingin getur kallað fram. Sé talið líklegt að þau verði umtalsverð skal mat fara fram á þeim áhrifum eingöngu en ekki heildarframkvæmdarinnar.

Þá segir nefndin að rannsókn málsins hafi verið  fullnægjandi og  Skipulagsstofnun hafi fært viðhlítandi rök að þeirri niðurstöðu sinni að breyting á hvíldartíma eldissvæða væri ekki líkleg til að valda svo umtalsverðum umhverfisáhrifum að mat á þeim þyrfti að fara fram.

 

DEILA