Elstu brunavirðingar Ísafjarðarkaupstaðar á vefinn

Undanfarin ár hefur Þjóðskjalasafn Íslands styrkt verkefni sem snúa að skönnun og miðlun valdra skjalaflokka á héraðsskjalasöfnum með áherslu á skjöl frá því fyrir 1930.

Við síðustu styrkúthlutun fékk Skjalasafnið á Ísafirði styrk til að skanna elstu brunavirðingar Ísafjarðarkaupstaðar og annarra þéttbýliskjarna á norðanverðum Vestfjörðum.

Brunavirðingar eru mikilvægar heimildir um hús og nýtast vel þeim sem vinna að endurgerð gamalla húsa eða hafa áhuga á húsasögu.

Eftir að Ísafjarðarkaupstaður fékk inngöngu í Brunabótafélag danskra kaupstaða árið 1878 voru öll hús bæjarins virt til brunabóta. Húsunum var lýst nákvæmlega og verðmæti þeirra metið og skráð. Þessar brunavirðingar veita mikilvægar upplýsingar um byggingarár húsa og breytingar sem gerðar hafa verið á þeim.

Aðrar mikilvægar heimildir um hús á Ísafirði eru fundargerðabækur byggingarnefndar.

Búið er að skanna bækur sem ná yfir tímabilið 1866 til 1929 og má finna þær hér á vefnum ásamt brunavirðingum frá 1878 til 1931. Aðrar brunavirðingar verða settar inn um leið og skönnun þeirra er lokið og þær eru tilbúnar til birtingar.

DEILA