Byggðasafn Vestfjarða: samdráttur í rekstrinum

Ársreikningur fyrir Byggðasafn Vestfjarða fyrir 2019 hefur verið lagður fram. Fram kemur að dregið var saman í rekstri safnsins. Stöðugildin voru 1,44 í stað 2,92 sem gert hafði verið ráð fyrir. Fyrir vikið lækkaði launakostnaður úr 23 m.kr. í 16,5 m.kr. Aðrir útgjaldaliðir voru í samræmi við fjárhagsáætlun og urðu útgjöldin 38,5 m.kr. í stað 43 m.kr.

Þjónustutekjur urðu 2 m.kr.  lægri en ráð var fyrir gert 11,5 m.kr. í stað 13,5 m.kr.  Sölutekjur og aðrar tekjur urðu 3m. kr.

Stærstur hluti teknanna kemur frá sveitarfélögunum við Djúp, sem standa að safninu. Framlög þeirra urðu 27,7 m.kr. sem skiptast milli þeirra í samræmi við íbúafjölda.

Helstu útgjöld fyrir utan laun eru þjónustukaup, sem námu 9 m.kr. og húsaleiga 5,2 m.kr.

Rekstrarafkoman varð jákvæð um 3,6 m.kr. á síðasta ári.

Starfsemi Byggðasafns Vestfjarða felur í sér rekstur safna og bátasafns.

Í athugasemdum við ársreikninginn segir að lífeyrisskuldbinding vegna starfsmanna Byggðasafns hafa til þessa verið bókaðar hjá Ísafjarðarbæ. „Fyrir liggur að þessar
skuldbindingar eigi að færast í bókhald Byggðasafns Vestfjarða, enda hluti af launakostnaði safnsins. Í árslok 2019 nemur skuldbindingin 43.135 þúsunda króna.“

Bókfærðar eignir safnsins eru tæpar 37 m.kr. og skuldir 54 m.kr. einkum við Ísafjarðarbæ og eigið fé því neikvætt um 17 m.kr.

 

DEILA