Bolungavík: skemmdir unnar á golfvellinum

Skemmdir voru tvívegis unnar á golfvellinum í Syðridal í Bolungavík í vikunni. Lögreglan hefur verið kölluð til og er málið til rannsóknar.

Í fyrra sinnið, á þriðjudagskvöldið, voru unnar allnokkrar skemmdir á teig einnar holunnar. Það mál er upplýst. Um var að ræða unga drengi sem hafa viðurkennt verknaðinn og beðist afsökunar. Unnsteinn Sigurjónsson, umsjónarmaður golfsvæðisins segir að um hafi verið að ræða óvitaskap frekar en ásetning.

Í gærkvöldi voru öðru sinni unnar skemmdir og nú á golfkerru og munum við Golfskálann. Brotin voru ljós á kerrunni og olíu dælt upp úr tunnu og hellt á stéttina við skálann, auk þess sem brotnar voru flöskur og skemmdar fötur sem kylfingar nota. Að sögn Unnsteins eru skemmdirnar töluverðar og kostnaður við viðgerðir umtalsverður.

Unnsteinn sagði að lögreglan væri að rannsaka skemmdirnar og leita að gerendunum. Upplýsingar liggja fyrir sem geta auðveldað leitina.

DEILA