Bolungavík: opna nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð

Bolungavíkurkaupstaður hefur gert samstarfssamning við Djúpið, nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð. Samningurinn var lagður fram í bæjarráði í síðustu viku og bókað var að bæjarráðið fagnar samningnum og áformum um uppbyggingu á nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð í Bolungarvík.

Gerður verður leigusamningur milli bæjarins og Djúpsins um afnot af húsnæði í Ráðhúsinu undir starfsemi miðstöðvarinnar. Verður Djúpið þar sem embætti Sýslumannsins í Bolungavík var áður.

Í stjórn Djúpsins eru Gunnar Ólafsson, Jón Páll Hreinsson og Kristján Jón Guðmundsson.

Bæjarins besta hitti Gunnar Ólafsson í aðstöðu Djúpsins og sagði hann að fljótlega yrði formleg opnun en nú væri verið að útbúa aðstöðuna. Þar mun verða aðstaða fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki og sagði Gunnar að þegar væri búið að óska eftir aðstöðu fyrir 6 verkefni.

Djúpið hefur fengið styrki frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Vestfjarðastofu til þess að koma miðstöðinni af stað.

Gunnar Ólafsson sagði að stefnt væri að reglulegum viðburðum eða súpufundum þar sem færi fram kynning á einstökum verkefnum se væru í gangi á vegum Djúpsins. Fyrsti fundurinn verður í næsta mánuði og verður Djúpið, nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð kynnt.

DEILA