Bolungavík: Góð aðsókn að tjaldsvæðinu

Þessa mynd af aðstöðunni í Bolungavík tók Róbert Daníel Jónsson.

Góð aðsókn hefur verið að tjaldsvæðinu í Bolungavík að sögn Magnúsar Más Jakobssonar, forstöðumanns íþróttamiðstöðvarinnar Árbæ.  Nær eingöngu hefur verið um innlegda ferðamenn að ræða.

Magnús Már segir að gestir séu ánægðir með endurbætur  sem hafa verið gerðar í sundlauginni og  lýsi jafnframt yfir mikilli ánægju með svæðið og aðstöðuna þar. Sérstaklega er hælt aðstöðunni fyrir börn.

Magnús Már segir að hann hafi ráðlagt ferðamönnum að fara upp á Bolafjall um og eftir miðnættið og fylgast með sólsetrinu. Þessar vikurnar fer sólin ekki niður fyrir hafflötinn en snertir hann. Ferðamenn hafa verið mjög ánægðir með þessar skoðunarferðir.

Eins hafa ferðamenn sótt vel matsölustaðina  Víkurskálann og Einarshúsið og segir Magnús Már að báðir staðirnir fái mjög góða umsögn.

DEILA