Bókaverslun Jónasar Tómassonar 100 ára – sýning og minningarskjöldur

Þann 20. ágúst n.k. verða 100 ár liðin frá því að Jónas Tómasson, tónskáld og bóksali, hóf starfsemi Bókaverslunar Jónasar Tómassonar á Ísafirði. Af því tilefni munu afkomendur Jónasar og Önnu Ingvarsdóttur konu hans, koma saman um Verslunarmannhelgina og minnast tímamótanna. Opnuð verður sýning í Bryggjusal Edinborgarhússins með munum og myndum sem tengjast sögu verslunarinnar og einnig verður um helgina vígður skjöldur sem búið er að koma fyrir í gangstéttinni fyrir framan Hafnarstræti 2 þar sem verslunin var lengst til húsa.

Fyrstu árin var verslunin rekin að Aðalstræti 26A en árið 1929 flutti hún í nýbyggt húsnæði að Hafnarstræti 2 og var starfrækt þar af afkomendum Jónasar allt til ársins 2006 þegar Penninn/Eymundsson eignast hana. Verslunin var lengst af þekkt undir nafninu Bókhlaðan.

Sýningin í Bryggjusal Edinborgarhússins verður opin öllum mánudaginn
3. ágúst frá kl. 14 til 18 og eru ættingjar og fyrrum starfsmenn Bókhlöðunnar sérstaklega boðnir velkomnir.

Gestir athugið að viðhafa þarf tveggja metra regluna á sýningunni.

 

 

 

 

DEILA