Bergþór Ólason: það verður að vera önnur gjaldfrjáls leið

Bergþór Ólason, alþm. var inntur eftir afstöðu sinni til áforma eða hugmynda um að taka upp gjaldtöku í jarðgöngum landsins sem varið verður til að greiða stofnkostnað af nýjum jarðgöngum.

Í svari sínu minnir hann á að við þinglok í sumar var samþykkt frumvarp um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, þar sem er sérstaklega hnykkt á því að „það verði að vera önnur leið“ fyrir vegfarendur sé ætlunin að viðhafa sérstök veggjöld.  „Ég reikna með að þar með séu ljóst að Bolungarvíkurgöng verð áfram gjaldfrjáls, nema ráðherra ætli sér að opna Óshlíðarveginn aftur og sama á við um Vestfjarðagöngin.“

 

Óljósar hugmyndir um gjaldtöku

„Það hefur tekist að þvæla þessi gjaldtökumál verulega á undanförnum mánuðum og misserum.  Við í Miðflokknum gagnrýndum harðlega í umræðu um samgönguáætlun og síðan umræðum um heimild til stofnunar opinbers hlutafélags til að halda utan um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins (m.a. Borgarlínuna) að ráðherra hefði ekki enn lagt fram formaðar hugmyndir um hvernig gjaldtöku í formi veggjalda yrði háttað, kæmi hún til.“

Ekki andvígur í prinsippinu

„Ég hef í prinsippinu ekki verið á móti veggjöldum, að því gefnu að önnur gjöld lækkuðu á móti, enda eru ökumenn landsins með skattpíndustu hópum.  Það er fær leið ef markmiðið er að hærra hlutfall af tekjum af vegakerfinu komi frá því sem ég hef kallað „einskiptisnotendur“, það eru erlendir ferðamenn og „Gísli Marteinn“ (óformlegt samheiti yfir þá sem nota þjóðvegakerfið lítið).“

Í ítarlegu svari sínu segir Bergþór:

 

Nú við þinglok var verið að grautast með gjaldtökuhugmyndir í þremur mismunandi frumvörpum og þingsályktunartillögum, það virtist helst gert til að forðast það að koma fram með stefnu um framtíðargjaldtöku af samgöngum (meðal annars vegna orkuskipta) og til að forðast það að svara spurningunni hvort sérstök veggjöld verði hluti af þeirri framtíðarsýn.

 

Sjálfur hef ég haldið því fram að sérstök veggjöld séu ekki fyrsti kostur, og ekki annar kostur eða þriðji, get farið yfir það í löngu máli, en á meðan stjórnvöld eru ekki reiðubúin að leggja meiri fjármuni til nýframkvæmda á vegakerfinu en raunin er, þá verðum við að leita leiða til að komast hraðar áfram.  Slíkir eru hagsmunirnir.  Ég hef haldið óteljandi ræður um það hversu lágt hlutfall af tekjum ríkissjóðs af ökutækjum og umferð er varið til uppbyggingar vegakerfisins og það þó að virðisaukaskattinum sé alveg haldið utan við þá jöfnu.  En á meðan afstaða stjórnvalda er eins og hún er, þá verðum við að skoða hvaða leiðir eru færar til að bæta í framkvæmdir.

 

Við þinglok var samþykkt frumvarp um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir, þar er sérstaklega hnykkt á því að „það verði að vera önnur leið“ fyrir vegfarendur sé ætlunin að viðhafa sérstök veggjöld.  Ég reikna með að þar með séu ljóst að Bolungarvíkurgöng verð áfram gjaldfrjáls, nema ráðherra ætli sér að opna Óshlíðarveginn aftur og sama á við um Vestfjarðagöngin.

 

Þessu til viðbótar, þá er rétt að rifja upp tvær málsgrein úr minnihlutaáliti fulltrúa Miðflokksins (BÓ og Karl Gauti Hjaltason) í Umhverfis- og samgöngunefnd við nýsamþykkta samgönguáætlun:

Framtíðargjaldtaka af umferð.
Annar minni hluti gerir athugasemdir við að vinna við útfærslu á framtíðarfyrirkomulagi gjaldtöku af umferð sé ekki lengra komin en raunin er og telur að það sé mikilvægt að sú vinna liggi fyrir þegar teknar eru ákvarðanir í samgöngumálum sem tengjast m.a. samvinnuverkefnum (PPP) og svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.
Nauðsynlegt er að kveða skýrt á um viðmiðunarfjárhæð veggjalda sem fyrst. Þar verði nánar fjallað um útfærslu afsláttarkjara og leggur minni hlutinn sérstaka áherslu á lækkaðar álögur á bifreiðaeigendur til móts við þau gjöld. Þegar þessi leið er útfærð ber að forðast margfeldisáhrif innheimtu af þeim sem þurfa að fara um mörg veggjaldahlið, t.d. til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar.“

Síðar í álitinu segir:

„Leiðir til fjármögnunar.
Annar minni hluti áréttar að mikil framkvæmdaþörf er um allt land og að með núverandi framlögum til nýframkvæmda og viðhalds vinnast verkin hægt. Annar minni hluti mun í umræðu um fjármálastefnu og fjármálaáætlun og eftir atvikum um fjárlög á komandi haustþingi leggja til að heimilað verði að hefjast handa við umfangsmikið fjárfestingarátak í samgöngumálum á grundvelli skuldsettrar fjármögnunar.“

Álitið er aðgengilegt hér: https://www.althingi.is/altext/pdf/150/s/1687.pdf

DEILA