Arctic Sea farm : 4000 í Arnarfirði tonna laxeldi

Skipulagsstofnun hefur gefið út álit sitt á matsskýrslu um 4000 tonna laxeldi Arctic Sea Farm í Arnarfirði. Fyrirtækið lagði fram frummatsskýrslu í mars 2018 og í júlí sama ár, fyrir nærfellt tveimur árum,  var matsskýrslan lögð fram.

Tvö ár í stað fjögurra vikna

Álit Skipulagsstofnunar liggur nú fyrir. Samkvæmt lögum um umhverfismat skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort skýrslan uppfylli skilyrði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt innan fjögurra vikna frá því að stofnunin tók á móti matsskýrslunni.

Matsskýrslan uppfyllir skilyrði laga og lýsir framkvæmd 

Heildarniðurstaða Skipulagsstofnunar er að stofnunin telur að matsskýrslan uppfylli skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum og að umhverfisáhrifum hafi verið lýst á fullnægjandi hátt.

Óveruleg erfðablöndun við villta laxastofna

Samkvæmt áhættumati Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna er talið að hægt sé að leyfa allt að 20.000 tonna eldi á frjóum laxi í Arnarfirði án þess að laxastofnar í þeim ám sem matið tekur tillit til skaðist. Með hliðsjón af áhættumati Hafrannsóknastofnunar telur Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdar á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg.

En samt..

Athygli vekur að Skipulagsstofnun ákveður að horfa til mögulegra áhrifa á laxastofna í öðrum ám en áhættumat Hafrannsóknarstofnunar tekur til og fær þá út að eldið hafi nokkuð neikvæð áhrif á villta laxastofna.

Segir í áliti stofnunarinnar að „gera verður ráð fyrir að strokulaxar geti leitað upp í ár í Arnarfirði og jafnvel í ár í öðrum fjörðum sem áhættumat tekur ekki tillit til. Áhrif stroks ættu að vera mest í nágrenni við strokstað í Arnarfirði. Skipulagsstofnun telur að eldi Arctic Sea Farm í Arnarfirði komi til með að hafa nokkuð neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum.“

Engin skýring er gefin á því hvers vegna Skipulagsstofnun telur að horfa þurfi til mögulegrar erfðablöndunar í ám utan þess svæðis sem áhættumat Hafrannsóknarstofnunar tekur til. Ekki kemur heldur fram hvaða sérfræðiþekking er til staðar innan Skipulagsstofnunar eða annars staðar sem víkur til hliðar mati Hafrannsóknarstofnunar, sem lögum samkvæmt á að meta áhættuna á erfðablöndun. Ekki kemur heldur fram rökstuðningur fyrir þessu mati Skipulagsstofnunar að eldið hafi nokkuð neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum.

Þetta mat Skipulagsstofnunar er hins vegar rökstuðningur fyrir því að stofnunin segir að hún telji að setja verði  tvö skilyrði fyrir rekstrarleyfi eldisins. Það er að ekki verði sett útseiði undir 120 g að þyngd og að stærð netmöskva verði aðlagað að stærð seiðanna svo ekki sé möguleiki á að þau sleppi og  skilyrði um notkun ljósastýringar.

Næsta skref að fengnu áliti Skipulagsstofnunar er að gefa út leyfi fyrir eldinu. Matvælastofnun gefur út rekstrarleyfi og Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi.

 

DEILA