Vill Reykjavíkurflugvöll burt

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Björn Leví Gunnarsson, alþm. Pírata leggur til að miða skuli við að flytja skuli Reykjavíkurflugvöll svo fljótt sem auðið er en að völlurinn geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þangað til nýr flugvöllur hefur verið byggður.

Þetta kemur fram í tillögu sem hann hefur lagt fram á Alþingi við tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034.  Með tillögunni er í raun lagt til að Alþingi geri það að opinberri stefnu að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni.

Vilja rannsókn á Skerjafjarðarbyggð

Tveir fulltrúar Miðflokksins í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis gera á hinn bóginn athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir við frekari byggð í Skerjafirði og telja óforsvaranlegt að breyting á deiliskipulagi Reykjavíkurborgar verði gerð án þess að fullnægjandi rannsóknir á áhrifum þessarar uppbyggingar á flugöryggi liggi fyrir. Fara þeir fram á að stjórnvöld tryggi að ráðrúm gefist til rannsókna áður en nýtt deiliskipulag fyrir svæðið verður samþykkt fyrirbyggja megi óafturkræfan skaða. „Það er ótækt að skilyrði til flugs og flugrekstrar á vellinum versni þannig að tilveru vallarins verði stefnt í hættu“ segir í nefndaráliti þeirra.

Ekkert gert fyrr en jafngóður flugvöllur verður tilbúinn

Meirihluti þingnefndarinnar, sem er skipaður fulltrúum stjórnarflokkanna og Viðreisnar, segir um Reykjavíkurflugvöll í sínu áliti:

„Nefndin leggur því áherslu á að Reykjavíkurflugvelli verði þannig haldið við og hann byggður upp að þar verði hægt að sinna því hlutverki sem hann gegnir nú á öruggan og viðunandi hátt og að öryggis- og þjónustustig vallarins verði ekki skert frekar en orðið er fyrr en nýjum flugvelli, sem hefur jafngóða eða betri eiginleika, hefur verið fundinn staður og hann tilbúinn til notkunar.“

Vitnað er í áliti meirihlutans til  skýrslu um flugvallarkosti á suðvesturhorni landsins, sem kom út í nóvember 2019, en þar kemur fram að heildartími við hönnun og uppbyggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni verði að lágmarki 13–17 ár frá því að ákvörðun um verkefnið hefur verið tekin, að því gefnu að hönnun og uppbygging fari ekki af stað fyrr en að loknu ferli skipulags- og umhverfismála.

DEILA