Vesturbyggð: vonbrigði með afstöðu Tálknafjarðarhrepps

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að Tálknafjarðahreppur hafi ekki viljað koma að endurnýjun hjúkrunarrýma við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði og muni ekki standa straum af kostnaði sveitarfélaga við endurnýjun hjúkrunarrýma, þ.e. 17 % af heildarkostnaði við framkvæmdina, þar sem þjónustan er í boði fyrir alla íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum.

Framundan er fjárfrek endurnýjun hjúkrunarrýmanna í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á  Patreksfirði og reglum samkvæmt bera sveitarfélögin sem njóta þjónustunnar hluta kostnaðar. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur hafnað því að taka þátt í kostnaðinum. Heildarkostnaður er áætlaður um 400 m.kr og hlutur sveitarfélaganna, Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar er um 60 m.kr. Miðað við íbúafjölda ætti Tálknafjarðarhreppur að greiða um 15 m.kr.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðistofnunarinnar segir að Tálknfirðingar muni hafa fullt aðgengi að þjónustu stofnunarinnar þrátt fyrir synjunina.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar segir að ekki liggi fyrir hvort þessi hlutur sveitarfélaganna muni að öllu leyti falla á Vesturbyggð. „Það samtal eigum við eftir að taka við ríkið núna þegar formleg afstaða Tálknafjarðahrepps liggur fyrir.“

 

 

DEILA