Vesturbyggð: þjóðhátíðarræða bæjarstjóra

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar var ræðumaður á Þjóðhátíðarhátíðarhöldum sem fram fóru á Friðþjófstorgi á Patreksfirði. Bæjarins besta birtir hér ræðuna að fengnu samþykki Rebekku.

 

Kæru hátíðargestir.

Til hamingju með daginn.

Við erum hér saman komin í dag til að fagna þjóhátíðardeginum. Degi sem haldinn er hátíðlegur á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar, þess merka vestfirðings frá Hrafnseyri við Arnarfjörð. Hann barðist fyrir sjálfstæði Íslands og hvatti þjóðina til dáða í þeirri baráttu. Allt frá stofnun íslenska lýðveldisins Íslands á þingfundi að Lögbergi á Þingvöllum, á því herrans ári 1944, hefur íslenska þjóðin haldið upp á þessi tímamót í sjálfstæðissögu Íslands.

Á þeim mikla rigningardegi sem var 17. júní 1944, var fyrsti forseti lýðveldisins kjörinn, Sveinn Björnsson. Í ávarpi sínu þennan dag ræddi hann um samstöðu og kvatti þjóðina til aukins samstarfs. Sem merki um þann mikla samstöðumátt sem íslenska þjóðið hafði þá þegar sýnt kom skýrt fram í mikilli kjörsókn sem var í sumum hreppum allt að 100% þegar gengið var til kosninga um sambandslit við Danmörku.

Almennur kosningaréttur er eitt af grundvallaratriðum lýðræðislegra stjórnarhátta. Við höfum því þann stjórnarskrávarða rétt að geta kosið, en rétturinn er ekki sjálfsagður, ekki einu sinni í heiminum í dag.

Þótt flest okkar sem stöndum hér í dag hafi alist upp í sjálfstæðu ríki og hafa tekið þjóðerni og fullveldi okkar sem sjálfsögðum hlut frá fæðingu, þá er hér um mikilvæg réttindi okkar allra að ræða. Það er því nauðsynlegt að við nýtum okkur þau réttindi sem forferður og formæður okkar börðust fyrir og við nýtum það tækifæri sem við fáum nú 27. júní næstkomandi, þegar þjóðin gengur til kosninga um forseta Íslands.

Hvert og eitt okkar hefur sínar skoðanir, hvort sem er á mönnum eða málefnum og þá er mikilvægt að við mætum á kjörstað og kjósum. Öðru vísi höfum við ekki áhrif í lýðræðisríki. Sjaldan hefur það verið mikilvægara að rödd fólksins heyrist og við nýtum öll þau tækifæri sem við höfum til að hafa áhrif. Á fimm ára lýðveldisafmæli Íslands orti Tómas Guðmundsson, ljóðskáld, þessar línur sem minna mann á mikilvægi þessara réttinda okkar:

“Svo haldi landsins heilladísir vörð

um hvern þann stað, sem fáninn blaktir yfir,

því þar skal frjálsu fólki heilög jörð

og föðurland á meðan sál þess lifir.

En vit, að þín arfleið, von og þrá

er áskorun frá minning, sögu og ljóðum,

að ganga af heilum hug til liðs við þá,

sem heiminn vilja byggja frjálsum þjóðum.”

Ég vil því nýta þetta tækifæri til að hvetja hvert og eitt ykkar til að nýta þau mikilvægu lýðræðislegu réttindi sem við eigum, til að fara og nýta kosningaréttinn.

Í ávarpi Sveins Björnssonar forseta á Þingvöllum 1944 ræddi hann, eins og áður segir, um samstöðu þjóðar. Sjaldan hefur samstaða og mikilvægi samvinnu verið okkur jafn mikilvæg og nú á síðustu mánuðum, þar sem við sem samfélag, sem þjóð, tókumst saman á við heimsfaraldur kórónuveiru og gerum enn. Eins og svo oft áður þá er það samvinnan sem gerir okkur sterkari. Sú mikla samstaða og samvinna sem íbúar hér í Vesturbyggð sýndu á tímum sem þessum, er aðdáunarverð og vil ég þakka öllum þeim sem koma að þessu verkefni kærlega fyrir þeirra framlag. Hvert sem hlutverk okkar er hér í þessu samfélagi þá er framlag okkar allra gríðarlega mikilvægt á fordæmalausum tímum eins og við höfum hér upplifað.

Hátíðarhöld hér í dag taka auðvitað mið af þessum tímum og eru hátíðarhöld hér sem og annarsstaðar á landinu, minni og dreifðari en kanski hefði verið undir eðlilegum kringumstæðum. Það má segja að 17. júní 2020 marki ákveðin tímamót þar sem við komum saman og gerum okkur glaðan dag eftir þungan vetur.

Kæru gestir, ég væri sennilega ekki sannur Vestfirðingur ef ég talaði nú ekki um veðrið, hvað þá 17. júní veðrið. Mörg okkar tengja saman rigninguna og 17. júní hátíðarhöld. Reyndar er það tilfinning mín að sunnlendingar séu vanari votum hátíðarhöldum en við hér í Vestra. Hátíðarhöld í tilefni þjóðhátíðardagsins tengja án efa margir líka við bernskuna og ljúfar barnaminningar. Þessi dagur minnir okkur á blaktandi fána, söng, leiki og gleði.

Mínar bernskuminningar um 17. júní hátíðarhöld tengjast svæðinu hér handan við fjörðinn stekum böndum. Þegar sú blómlega sveit kom saman með hátíðarhöldum í Fagrahvammi í Örlygshöfn. Þar tókust á börn og fullnorðnir í hinum ýmsu kappleikjum og í minningunni sýndu mikla hæfileika í pokahlaupi og að negla nagla. Þessar bernskuminningar eru litaðar af gleði, hlátri og alltaf, undantekningalaust, er gott veður. Mögulega svipar veðrinu þá nokkuð til þess sem við höfum hér í dag, mildur og fallegur júní dagur.

Von mín í dag er að þið njótið samverunnar hér í dag með fjölskyldu og vinum. Njótið gleðinnar og látið hláturinn óma um fjöll og firði í tilefni dagsins og þannig sköpum við komandi kynslóðum, börnum okkar hér í dag, góðar minnningar af þessum hátíðisdegi. Þótt við komum kanski ekki til með að stjórna veðrinu, þá getum við allavega stjórnað gleðinni og hlátrinum.

Ég vil hér að lokum enda þetta fyrsta hátíðarávarp mitt sem Bæjarstjóri hér í Vesturbyggð á orðum Bjartmars Hannessonar um 17. júní.

“Í hjarta sínu fólkið gleðst og syngur lítið lag,

því lýðveldið Ísland á afmæli í dag.”

Takk fyrir.

Rebekka Hilmarsdóttir

DEILA