Vestfirðir: atvinnuástand með því besta á landinu

Bíldudalur. Þar er gott atvinnuástand. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Atvinnuástand á Vestfjörðum er betra en víðast hvar á landinu. Almennt atvinnuleysi í maí var 3,8% í fjórðungnum en 7,4% á landsvísu. Í hlutastarfi á Vestfjörðum voru 4,2%  en á landsvísu var hlutfallið 5,6%. Atvinnulausir í maí voru 153 og 254 voru í minnkuðu starfshlutfalli.Spáð er að atvinnuleysið á Vestfjörðum verði 3,6% í júní og í hlutastarfi verði 2,9% eða samanlagt jafngildi 6,5% atvinnuleysis. Samanlagt reiknast atvinnuleysið í maí, þegar hlutastörfin hafa verið reiknuð inn, sem 8%.

Þetta kemur fram í gögnum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér og er unnið upp úr gögnum Vinnumálastofnunar ríkisins.

Staðan á Vestfjörðum hefur batnað verulega frá aprílmánuði þegar atvinnuleysið var 11,4%.

Atvinnuleysið samandregið var mest í Strandasýslu í maímánuði, 11,8% í Kaldrananeshreppi og 10% í Strandabyggð. Í Ísafjarðarbæ var það 9,1% og 9% á Tálknafirði.

Minnst var atvinnuleysið í maí í Árneshreppi 4,1% og í Vesturbyggð 4,2%.

DEILA