Vegagerðin: jarðgangadeildin lögð niður

Jarðgangadeild Vegagerðarinnar verður lögð niður síðar á árinu þegar núverandi forstöðumaður deildarinnar fer á eftirlaun. Jarðgangadeildin er á Ísafirði og hefur Gísli Eiríksson veitt henni forstöðu. Tvö störf eru á deildinni.

Vegagerðin auglýsti í síðasta mánuði  starf sérfræðings í hönnun og hönnunarstjórn
jarðganga á hönnunardeild Vegagerðarinnar í Reykjavík.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar var inntur eftir þessum breytingum og hvort færð yrðu störf til Ísafjarðar í stað þeirra sem færast suður.

„Það er ekki verið að færa jarðgangadeildina heldur að breyta skipulagi, það verður ekki sérstök deild heldur verða verkefnin er snúa að jarðgöngum hjá mismunandi deildum. Ráðinn verður hönnunarstjóri sem verður á hönnunardeild, en viðhald og rekstur fer undir þjónustusvið og nýframkvæmdir undir framkvæmdadeild.“

Þá sagði G. Pétur í svari sínu að „Hluti þess starfseminnar, er snýr að rekstri og viðhaldi jarðganga verður unnin frá Ísafirði. Það verður sem sagt ekki ráðið sérstaklega í stað Gísla Eiríkssonar beint þegar hann lætur af störfum í haust.“

 

DEILA