Á síðasta kjörtímabili gekk þáverandi meirihluti frá samkomulagi við Hestamannafélagið Hendingu um lausn á deilumáli því sem hófst þegar félagið missti alla sína aðstöðu á Búðartúni í Hnífsdal, vegna lagningar Óshlíðarganga. Samkvæmt samkomulaginu lagði Ísafjarðarbær til allt að 8 milljóna króna virði af möl og 30 milljónir króna í hlutafé vegna byggingar á reiðskemmu á svæði hestamanna í Engidal. Á móti lögðu hestamenn til 20 milljónir sem Vegagerðin hafði boðið sem bætur fyrir svæðið í Hnífsdal, auk þess sem þeir lögðu til gríðarlega sjálfboðavinnu við byggingu reiðskemmunnar sem lagt er inn sem hlutafé í Kaplaskjól ehf.
Hörð andstaða minnihlutans þáverandi, sérstaklega sjálfstæðismanna, gegn þessu samkomulagi var eftirtektarverð og í reynd mun meiri en upphæð samkomulagsins gat nokkurntíman gefið tilefni til. Í tilefni af því að knattspyrnuhúsið sem fótboltamenn sögðu upphaflega að ætti að kosta 250 milljónir, er nú komið með kostnaðaráætlun sem er meira en tvöföld sú upphæð, er kannski ekki úr vegi að rifja upp nokkur af þeim ummælum sem minnihlutinn þáverandi lét falla um það ábyrgðarleysi í fjármálum bæjarins, sem Í-listinn sýndi með því að ganga frá áðurnefndu samkomulagi við hestamenn.
- Á 393 fundi bæjarstjórnar 2 febrúar 2017, settu sjálfstæðismenn fram mjög langa bókun, sem m.a. hljómar svona: “Öll vinnubrögð við þessa samningsgerð eru með hreinum ólíkindum en augljóst er að fulltrúum Í-listans finnst engin ábyrgð fylgja því að ráðstafa fjármunum bæjarbúa. Í raun má segja að Í-listinn sé að gefa út opinn tékka á bæjarsjóð, svo illa unninn og óvandaður er samningurinn. Viðhorfið virðist vera að þetta sé allt í lagi það er einhver annar sem borgar. Málið er bara að þessi einhver annar er bara við, íbúarnir í bænum okkar.”
- Á sama fundi bókar fulltrúi framsóknarmanna eftirfarandi: “Miðað við reynslu okkar af framkvæmdum og samningum sem Ísafjarðarbær hefur tekið þátt í undanfarið svosem í Hjúkrunarheimilinu Eyri verðum við bæjarfulltrúar að gaumgæfa vel þær fjárhagslegu skuldbindingar sem bærinn leggur í. Fjármagnið eru auðvitað af skornum skammti og margvíslegar framkvæmdir eru á borðinu sem kalla á fjármagn.“
- Á bæjarstjórnarfundi nr 395, lagði bæjarfulltrúinn Daníel Jakobsson fram breytingartillögu sem m.a. hljóðar svona: “Skipuð verði byggingarnefnd sem í sitja tveir aðilar frá hestamönnum og einn frá umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar, sem mun vinna að samningi um skiptingu kostnaðar og eignarhald þegar að skilalýsing og kostnaðaráætlun liggur fyrir. Nefndin taki að sér að gera þarfagreiningu og skilalýsingu fyrir bygginguna og nákvæma kostnaðaráætlun með magntölum, ákvörðun um endanlega staðsetningu, stærð og efnisvali. Hvaða búnaður og innréttingar þurfa að vera í húsinu, t.d. hvað verði upphitað, salerni og félagsaðstaða, áhorfendur o.s.frv. Byggingarnefnd kemur sér saman um verkframgang og áfangskiptingu í útboðsverkum sem er algjör forsenda svona framkvæmda.”
- Daníel studdi reyndar ekki sjálfur eigin tillögu, en í umræðum um tillöguna lét hann m.a. eftirfarandi ummæli falla: “… að staðfesta að þið hafið áhuga á að gera þetta með hestamannafélaginu en þið hafið þá meiri tíma til að vinna þetta þetta mál faglega, tryggja það að það fari ekki fram úr kostnaðaráætlun, tryggja það að það sem þið eruð að samþykkja hér í dag sé það sem þið ætlið að fá og á allann hátt miklu farsælli leið til að vinna þetta mál og faglegri”
- Á sama fundi lét bæjarfulltrúinn Kristín Hálfdánardóttir þau ummæli falla að; “… ég fullyrði það hér að þessi samningur er opinn tékki á Ísafjarðarbæ”.
- Og á sama fundi, nr 395, lét bæjarfulltrúinn Marzellíus Sveinbjörnsson eftirfarandi ummæli falla: “…að taka 15 milljónir af ófyrirséðu, það er með ólíkundum, á fyrstu tveimur mánuðum ársins, ég veit ekki betur en að við séum að lenda í skakkaföllum með troðara hér uppi á dal og það væri nú ósköp gott að hafa þessar 15 milljónir til að bregðast við því”.
Það er áhugavert að spegla þessi ummæli, sem sett eru fram vegna samnings sem hljóðaði upp á 30 milljónir króna hlutafé sem greiddist á tveimur árum við þær hugmyndir sem menn æða nú áfram með og varða fjárfestingar á knattspyrnusvæðinu á Torfnesi og koma til með að kosta á bilinu 7-800 milljónir króna að lágmarki.
Síðastnefndu ummælin, hjá Marzellíusi, eru reyndar sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að vegna Covid19 er Ísafjarðarbær að lenda í 4-500 milljóna króna skell á þessu ári, sem er ýmist vegna lægri tekna eða hærri kostnaðar en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Engu að síður skal með góðu eða íllu fara í 7-800 milljóna króna framkvæmdir ofan í þetta gríðarlega áfall.
Þessa dagana er (án umræðu í bæjarstjórn) verið að vinna að því að gera samning við norskann aðila sem kæmi þá til með að framleiða knattspyrnuhúsið og reisa. Til að ná samningum við þennan framleiðanda hefur þurft að slá verulega af þeim kröfum sem gerðar voru í útboðinu í vetur. Afsláttur sá sem þessum tiltekna framleiðanda er þannig boðið, reiknast á um eða yfir 50 milljónum króna, sem eru ekki langt frá 15% af upphæð útboðsins. Reglur um útboð af þessu tagi eru alveg skýrar, verði þessi samningur ekki samhljóða útboðsgögnum er augljóst mál að allir þeir aðilar sem sóttu sér gögn í útboðinu, eiga rétt á bótum frá Ísafjarðarbæ og reikna má með umfangsmiklum málaferlum vegna þess.
Af þessu má klárlega sjá að hægristjórnin í Ísafjarðarbæ þykir við hæfi að þeir fái að spila eftir rýmri reglum en þeir ætla öðrum að spila eftir. Heimska eða hræsni, dæmi hver fyrir sig.
Sigurður Hreinsson bæjarfulltrúi