Tálknafjörður hafnar þátttöku í endurnýjun hjúkrunarrýma

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hafnaði því á síðasta fundi sínum að taka þátt í kostnaði við endurnýjun 11 hjúkrunarrýma á Patreksfirði við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Áætlað er að verkinu verði lokið 2023 og  kosti um 400 milljónir króna.  Áskilið er að sveitarfélögin greiði 15% kostnaðarins eða um 60 milljónir króna. Hlutur Tálknafjarðar hefði orðið um fjórðungur eða um 15 milljónir króna.  Ekki er ljóst hvort það fellur á Vesturbyggð að greiða þann hluta eða ríkið.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir aðspurður að  í athugun sé að gera fleira svo sem að endurnýja eldhús sjúkrahússins og með þessum framkvæmdum skapist tækifæri til þess að endurskipuleggja þjónustu við eldri borgara á sunnanverðum Vestfjörðum og nefnir hann þá m.a. heimaþjónustu, dagvist, heilsugæslu og þjónustuíbúðir. Að þeirri athugun komi bæði ríkið og Vesturbyggð. Gylfi segir að synjun Tálknafjarðarhrepps hafi ekki áhrif á aðgengi Tálknfirðinga að þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar, rétturinn sé til staðar eftir sem áður.

 

DEILA