Sveitarfélögin fá kjaftshögg frá Jöfnunarsjóði – 3,8 milljarða króna skerðing

Útgjöld Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa verið skorin niður um 3,8 milljarða króna vegna áhrifa covid19. Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnarmálaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafarnefndar sjóðsins um niðurskurðinn.

Mest lækka þau framlög sem byggja á skatttekjum ríkissjóðs. Það eru framlög vegna lækkandi tekna af fasteignaskatti, útgjaldajöfnunarframlög og almenn framlög vegna málefna fatlaðs fólks en þau síðastnefndu byggja bæði á framlögum vegna skatttekna ríkissjóðs og tekjum sjóðsins af álagningarstofni útsvars 2020.

86 m.kr. niðurskurður

Framlög til jöfnunar á fasteignaskatti lækka um 833 milljónir króna.

Ísafjarðarbær fær 43 milljóna króna skerðingu á sínum framlögum. Önnur sveitarfélög sem fá skert framlag eru  Vesturbyggð 13 milljónir, Reykhólahreppur 9 milljónir króna, Súðavík 5 milljónir kr. Árneshreppur 4 milljónir króna, Strandabyggð 10 milljónir króna og Kaldrananeshreppur 2 milljónir króna. Samtals er skerðingin 86 milljónir króna.  Tvö sveitarfélög fá meira en áður hafði verið ákveðið. Bolungavík fær 5 milljóna kr aukningu og Tálknafjarðarhreppur 3 m.kr. aukningu.

293 m.kr. niðurskurður

Útgjaldajöfnunarframlög lækka um 2.150 milljónir króna. Á Vestfjörðum verður niðurskurðurinn 293 milljónir hjá sveitarfélögunum níu. Mestur er niðurskurðurinn hjá Ísafjarðarbæ 98 m.kr. sem er 22% af framlögunum. Hlutfallslega er langmestur niðurskurður á framlögum til Strandabyggðar. Þau lækka úr 140 m.kr. niður í 80 m.kr. eða um 60 milljónir króna. Það er lækkun um 43%.

útgjaldajöfnunarframlög Bolungavíkurkaupstaðar lækka um 25 m.kr., Reykhólahrepps um 26 m.kr., Tálknafjarðar um 6 m.kr, Vesturbyggðar um 36 m.kr., Súðavíkur um 36 m.kr. og Kaldrananeshrepps um 6 milljónir króna. Árneshreppur verður ekki fyrir neinni skerðingu á útgjaldajöfnunarframlagi, en það kemur ekki til af góðu. Sveitarfélaginu hafði ekki verið ætlað neitt og því ekki af neinu að taka.

 

1500 m.kr. í haust

Þá lækka framlög vegna málefna fatlaðra um 600 milljónir króna.  Heimilt er að nýta allt að 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á þessu ári til mótvægisaðgerða vegna lækkunar tekna Jöfnunarsjóðs á árinu 2020. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um ráðstöfun þess fjármagns en gert er ráð fyrir því að ákvörðun um ráðstöfun fjármagnsins verði tekin í haust.

 

 

DEILA