Sjónarhóll bæjarstjórans í Bolungarvík

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungarvík og stjórnarmaður í Örnu mjólkurvörum ritaði grein inn á Bæjarins Besta vestfirska fréttamiðilinn í síðustu viku þar sem hann bjó til ráð um hvernig þú losar þig við samkeppnisaðila. Hann lýsti henni svo sem pillu í garð Mjólkursamsölunnar í morgunútvarpi á Rás2. Þar sem öllum má nú vera ljóst að greininni er beint að Mjólkursamsölunni er ágætt að eftirfarandi komi fram.

 

Stjórnendur og starfsfólk Mjólkursamsölunnar er vel meðvitað um þá stöðu sem fyrirtækið er í og þá ábyrgð sem henni fylgir. Það er mat mitt að í þessari grein er bæjarstjórinn að reyna slá ódýrar keilur í sinni bæjarmálapólitík með því að skapa stemningu með órökstuddum dylgjum í garð annarra. Það er einnig töluverð óskhyggja bæjarstjórans að tilvist Örnu kalli á sérstök varnar viðbrögð. Það sem ætti fyrst og fremst að horfa til í dag af báðum fyrirtækjum er aukinn innflutningur og staðkvæmdarvörur sem er í raun stærra mál en sýnist í fyrstu.

 

Það eru hagsmunir kúabænda, eigenda Mjólkursamsölunnar, að sem flestir aðilar starfi að nýsköpun í greininni, að vöruframboð sé fjölbreytt og smærri fyrirtæki skili árangri í framleiðslu úr mjólk eins og Arna hefur sannarlega gert.

 

Mikið hefur verið hagrætt í mjólkuriðnaðinum sl. áratugi en Mjólkursamsalan hefur á þeim tíma ekki treyst sér til þess að vera með afurðastöð á Vestfjörðum vegna hagkvæmnissjónarmiða. Samkvæmt viðtali við framkvæmdastjóra Örnu er flutningskostnaður mjög hár eða 10% af veltu, þetta er þótt fyrirtæki í eigu kúabænda keyri mjólkina upp að dyrum þeirra á sinn kostnað.  Mjólkursamsalan bætti við framlag kúabænda og árið 2015 bauð fyrirtækið minni aðilum á markaði bændaverð. Það er lægsta verð á mjólk til vinnslu upp að 300.000 lítrum. Þessu fyrirkomulagi hefur verið haldið eftir að Auðhumla samvinnufélag kúabænda tók við sölu á mjólk til Örnu. Arna nýtur þannig betri kjara en Mjólkursamsalan þegar kemur að hráefni í vörur. Örnu hefur með þessari meðgjöf kúabænda tekist að láta framleiðslu á Vestfjörðum ganga betur upp og við kúabændur erum ánægðir að geta lagt okkar að mörkum.

 

Mjólkursamsalan reynir að bregðast við óskum neytenda með öflugri vöruþróun. Árlega koma tugir nýrra vara á markað frá vöruþróunarteymi fyrirtækisins sem fara í dóm hjá neytendum og á matvælasýningar erlendis. Á matvælasýningu í Danmörku árið 2019 fékk Mjólkursamsalan til að mynda ellefu verðlaun og sérstök heiðursverðlaun fyrir KEA skyr með mangó í botninum sem kom á markað sama ár. Þessar vörur eru allar þróaðar af mjög hæfu fólki sem sinnir einnig alþjóðlegri vöruþróun fyrir Ísey skyr sem finna má á annan tug markaðssvæða í heiminum.

Öll metnaðarfull fyrirtæki eru svo að gera sitt besta í umhverfismálum og reyna að gera betur í dag en í gær. Það er ekki og ætti ekki að vera bundið við eitt fyrirtæki.

 

Bæjarstjórinn og stjórnarmaður Örnu ætti frekar að einbeita sér að því að því að heilla landsmenn með fegurð svæðisins og lífsgæðum íbúa á Vestfjörðum til að ná íbúatölu Bolungarvíkur yfir 1000 manns fremur en að búa til gerfi-óvin úr öðru landsbyggðarfyrirtæki og gera með því lítið úr neytendum með smásálarlegum hætti.

 

 

Elín M. Stefánsdóttir

Stjórnarformaður Mjólkursamsölunnar og kúabóndi í Fellshlíð.

 

DEILA