Sjávarútvegsráðherra skoðar bann við laxeldi í Jökulfjörðum

Kristján Þór Júlúusson er sjávarútvegsráðherra.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum þriggja stofnanna og viðkomandi sveitarfélaga um hvort rétt sé að lýst verði yfir banni við eldi laxfiska af eldisstofni í sjókvíum í Eyjafirði, Jökulfjörðum og í sunnanverðum Norðfjarðarflóa, það er í Viðifirði og Hellisfirði.

Erindin eru send á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga um fiskeldi nr. 71/2008 en samkvæmt ákvæðinu getur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart fiskeldi.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri staðfestir að erindið hafi borist í morgun og verður það tekið fyrir á fundi bæjarráðs á mánudaginn kemur.

 

Nú er í gildi auglýsing nr. 460/2004 um friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er lýst óheimilt á tilteknum svæðum og eru Eyjafjörður, Jökulfirðir og sunnanverður Norðfjarðarflói ekki meðal þeirra svæða sem þar eru tilgreind. Ekkert þessara svæða hefur verið burðarþolsmetið og engin rekstrarleyfi eða umsóknir um rekstrarleyfi eru til staðar á þessum svæðum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar gerði samþykkt á síðasta kjörtímabili þar sem lagst er gegn laxeldi í Jökulfjörðum. Sú samþykkt var lögð fram á fundi bæjarstjórnar til kynningar en ekki borin upp.

 

Enn er ósvarað fyrirspurn Bæjarins besta frá 28. maí til Sjávarútvegsráðherra um það hvenær verði ráðist í burðarþolsmat fyrir Jökulfirði og Borgarfjörð í Arnarfirði.

 

Ráðherra heldur opinn fund í Hofi á Akureyri í kvöld. Þar verða einnig fulltrúar veiðiréttarhafa og fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

DEILA