Ný rannsókn: skortur á orku leiðir til lægri launa

Ísafjörur hefur dregist aftur úr í þróun launatekna frá 1992 - 2016. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Út er komin skýrsla alþjóðlegs ráðgjafarfyrirtækis, sem heitir Frontier Economics, um samband milli aðgengis að umframafli í raforku  og þróun launa. Skýrslan var unnin að beiðni Landsnets. Jón Skafti Gestsson, hagfræðingur hjá Landsneti sagði í viðtali við Bæjarins besta að skoðað hefði verið hvort samband væri milli efnahagslegrar þróunar í byggðarlagi eða landsvæði og öruggu aðgengi að umframafli eða viðbótarafli.  Hann benti á að ef ekki er til staðar vaxtarmöguleiki þá komi fyrirtæki ekki á svæðið. Það þarf að vera til staðar nægilegt afl svo það gerist. “ Flutningskerfið er lykillinn“ sagði Jón Skafti.

Skýrsluhöfundar segja að öruggt aðgengi að umframafli sé lykilatriði í því að fá fyrirtæki til þess að ráðast í nýjar fjárfestingar sem krefjast orku. Aðgengið verði að vera til staðar þá og þegar  og ekki sé nægilegt að vísa til þess að kunni að vera síðar. Af fjárfestingunni leiði svo ný störf og vaxandi launatekjur.

Í skýrslunni er skoðað aðgengi að umframafli á 18 stöðum á landinu og hvernig það hafi þróast frá 1992 til 2016. Umframafhendingargetan (headroom) er skilgreind sem það afl sem er til reiðu umfram hámarksaflnotkun á staðnum.

Byggðarlögin eða svæðin  sem skoðuð voru eru Vestmannaeyjar, Árborg, Skagafjörður, Akureyri, Snæfellsbær, Ísafjarðarbær, Höfuðborgarsvæðið, Grundarfjörður, Vesturbyggð, Fljótsdalshérað, Bolungavík, Ölfus, Suðurnes, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra og Fjarðabyggð.

Aðgengi að öruggri umframorku skapar tækifærin

Niðurstaðan er:

  1. Umframafhendingargetan í 18 byggðarlögum hefur lækkað stöðugt frá 1992 til 2016 og er nú í sögulegu lágmarki.
  2. það er góður fræðilegur grunnur fyrir því að telja að umframafhendingargeta tengist vænlegum valkostum í atvinnuppbyggingu ( þ.e. jákvætt valkostavirði tengist umframafhendingargetu).
  3. Efnahagsleg gögn styðja þá kenningu.

 

Nefnt er sem dæmi hvernig umframafhendingargeta, sem var til staðar á Vopnafirði, gerði það mögulegt að ráðast í framkvæmdir ( í sjávarútvegi) sem juku raforkunoktun mikið. Afltoppurinn jókst úr 5 MW árið 2008 upp í nærri 20 MW á 8 árum sbr. meðfylgjandi mynd. Það varð einnig umtalsverð aukning á Seyðisfirði.  Það segja skýrsluhöfundar að sýni að afltoppar breytist með skömmum fyrirvara og því sé sem grundvallaratriði að umframaflið sé til reiðu.

 

Á næstu mynd sést að á Vopnafirði var 1992 einmitt til reiðu mikið umframafl eða 14 sinnum meira en hámarksaflþörfin var þá. Fyrirtækin hafa nýtt það og nú er hlutfallið orðið mjög lágt. Myndin sýnir einnig að afl til reiðu á Vestfjörðum var lítið umfram  hámarksaflnotkun, lægst var það 1992 á Ísafirði og ekki mikið betra ástand var í Vesturbyggð og Bolungavík. Staðan hefur síðan versnað enn og er 2016 langt undir 1 í öllum vestfirsku sveitarfélögunum.

Samkvæmt því sem skýrsluhöfundar álykta þá hefur þess skortur á umframafli komið í veg fyrir að jákvæðir kostir væru fyrir hendi í atvinnuppbyggingu.

 

Þetta sést enn betur á þesar mynd ( nr 10) sem sýnir hversu illa Ísafjarðarbæ hefur verið staddur að þessu leyti á árunum 1992 til 2016. Umframafhendingargeta á afli hefur verið mjög lítil allan tímann. Í byrjun tímabilsins er meðaltalið fyrir staðina 18 um sex sinnum meira en í Ísafjarðarbæ. Síðan hefur umframgetan leitt af sér framkvæmdir sem gengur á aflið og þar sem rafmagnskerfi landsmanna hefur ekki vaxið að sama skapi lækkar því meðaltalslínan niður undir 1 árið 2016.  Almennt er þá komin upp svipuð staða fyrir öll svæðin 18 og er í Ísafjarðarbæ.

20% munur á launaþróun

Næsta mynd lýsir þróun launatekna og heildatekna miðað við umframafhendingargetu. Heildartekjur sýna ekki mikinn mun á milli þróunar eftir stöðu afhendingargetunnar,  en þegar launatekjurnar eru teknar sérstaklega í stað heildartekna til athugunar birtist mjög skýrt samband milli þróunar launatekna og stöðunnar á umframafhendingargetunni. Launatekjur hafa árlega að meðaltali hækkað meira þar sem umframafhendingargetan var meiri. Þar sem hlutfallið var minna en 1 nam árleg hækkun launa 1,2% en þar sem hlutfallið var stærra en 2 var hækkunin 1,8%. Munurinn er 0,6% á ári og mælt yfir 24 ár verður munurinn um 20% á launahækkuninni. Þar sem árleg hækkun launatekna var 1,8% verður heildarhækkunin orðin 53% eftir 24 ár, en aðeins 33% þar sem árleg hækkun er aðeins 1,2%. Ísafjarðarbær er annar af tveimur stöðum sem var öll árin með afhendingarhlutfallið minna en 1. Í upphafi tímabilsins 1992 voru meðallaunatekjur á Ísafirði þær næsthæstu á landinu en hafa sigið síðan og voru 2016 komnar niður í 7. hæstu. Það sést svo betur á síðustu myndinni ( nr 9).

Gögnin sýna, segja skýrsluhöfundar, að laun hafi hækkað á ári hverju  0,6% minna þar sem umframafhendingarhlutfallið var undir 1 en þar sem það var hærra en 1 og þar sem hlutfallið var stærra en 2 séu skýrt jákvætt samband milli hlutfallsins og jákvæðrar efnahafsþróunar.

Skýrsluhöfundar segja  að þessi stöðugi  skortur á umframafli í Ísafjarðarbæ kunni að hafa gert fjárfestingar í sveitarfélaginu óaðlaðandi  sem svo eigi sinn þátt í efnahagslegri stöðnun sveitarfélagsins.

Jón Skafti Getsson, hagfræðingur Landsnets segir það hlutverk fyrirtækisins að stuðla að þjóðhagslegri hagkvæmni og jöfnum tækifærum um landið, því sé verið að láta skoða þennan þátt og greinilegt er að umframafhendingargeta á afli er atriði sem horfa þarf til.

Tryggja þarf þróunarmöguleika byggðarlaganna

Erlendu ráðgjafarnir mæla með því að Landsnet fylgist með hlutfallinu af umfram afli á hverjum stað og grípi til aðgerða til að bæta flutningskerfið þegar það fer undir 1  og benda á að jákvæðir þróunarmöguleikar vaxi með hækkandi hlutfalli upp að 3. Þá segja ráðgjafarnir að fylgjast verði með afhendingargetunni á hverjum stað því annars verði hætta á að ekki verði fjárfest í nauðsynlegum endurbótum á kerfinu sem svo komi niður á þeim svæðum eða byggðarlögum sem í hlut eiga.

-k

Fréttaskýringin hefur verið uppfærð og leiðrétt reiknivilla.

DEILA