Lýðskólinn á Flateyri ræður tvo nýja starfsmenn úr hópi 27 umsækjenda

Lýðskólinn á Flateyri.

Lýðskólinn á Flateyri hefur ráðið tvo nýja fastráðna starfsmenn, þau Gunnhildi Gunnarsdóttur og Juraj Hubinák.

 

Gunnhildur mun fyrst um sinn gegna stöðu kennslustjóra í afleysingum samhliða því að taka þátt í almennu skólastarfi og þróun skólans, en þróun náms og námsbrauta verður hennar aðalstarf. Hún er með meistaragráðu í uppeldis- og kennslufræði með fullorðinsfræðslu sem aðalfag frá Karl Franzens háskóla í Graz í Austurríki auk þess að vera með próf í leiðsögumennsku frá Vínarborg.

Gunnhildur var kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti á árunum 2009 – 2017, og rekstrarstjóri Tales from Iceland í Austurbæ 2017-2019. Hún hefur samhliða þeim störfum sinnt sjálfstæðum rekstri og leiðsögumennsku auk þess að hafa sinnt sjálfboðastörfum í Kenýa síðustu mánuði.

Gunnhildur tekur til starfa 1. ágúst, hún og fjölskylda hennar munu flytja til Flateyrar í sumar.

 

Juraj mun fyrst um sinn sinna þróunarstarfi og markaðsmálum auk þess að taka þátt í daglegu skólastarfi og samskiptum við nemendur. Hann er með doktorsgráðu í leiklistarfræðum frá Leiklistarakademíunni  (VŠMU) í Bratislava í Slóvakíu og mastergráðu á sama sviði frá Charles-de-Gaulle háskóla í Lille í Frakklandi.

Juraj er með 15 ára reynslu af markaðsstörfum, samfélagsmiðlum, verkefnastjórnun og listrænum verkefnum í sjónvarpi og leikhúsum. Hann hefur séð um þróun og framleiðslu á ýmsum sjónvarpsþáttum og sjónvarpskvikmyndum fyrir Slóvakíska sjónvarpið, sinnt háskólakennslu, stýrt leiklistarhátíð auk þess að vera sjálfstætt starfandi rithöfundur og leikstjóri. Síðustu ár hefur hann stýrt samfélagsmiðlaherferðum og markaðsstarfi í Prag fyrir ýmis þekkt vörumerki, stofnarnir og fyrirtæki s.s. Prague Quadrennial of Performance Design and Space, Czech Centre Brussels, Tesco, Johnnie Walker, Chupa Chups, Mentos og Amnesty International.

Juraj tekur til starfa 1. ágúst, hann býr á Flateyri.

 

Alls sóttu 27 manns um starf við skólann eftir auglýsingu þar sem kom fram að starfið fæli í sér þróun nýrrar alþjóðabrautar skólans og þátttöku í stjórnun og skipulagningu daglegs skólastarfs í samvinnu við aðra starfsmenn skólans, kennslu einstakra námskeiða, aðstoð við nemendur auk þess að bera stóla, raða í uppþvottavél og semja námsskrá.

Tveir umsækjenda voru með doktorsgráðu og 14 með meistaragráðu.

„Það var mjög erfitt að velja úr þessum öfluga hópi umsækjenda, hér er um að ræða fólk með mikla reynslu af skólastarfi ýmiskonar og af því að vinna með ungu fólki. Þetta er fólk með fjölbreytta menntun sem nýtist í þessu starfi, og fólk sem sýndi áhuga á því að flytja til Flateyrar og verða hluti af samfélaginu okkar hér. Það þykir okkur vænt um. Við bjóðum Gunnhildi og Juraj velkomin í Lýðskólaliðið og til Flateyrar og föngum þeirri uppbyggingu sem skólinn hefur og er að hafa í för með sér hér í þorpinu“ segir Ingibjörg Guðmundsdóttir skólastjóri Lýðskólans.

DEILA