Landssamband veiðifélaga hefur lagt fram kæru til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi. Arctic Fish hefur lagt fram frummatsskýrslu fyrir 8000 tonna lax- og eða silungseldi í Djúpinu. Er skýrslan nú til almennrar kynningar og var meðal annars kynnt á fundi á Ísafirði í síðustu viku.
Ferill málsins hófst í janúar 2017 þegar fyrirtækið sendi Skipulagsstofnun tillögu að matsáætlun. Stofnunin féllst á tillöguna í júní 2017. Var þá tekið til við að búa til frummatsskýrslu. Hún var svo lögð fram 30. október 2018. Í bréfi Skipulagsstofnunar dagsett 26. júní 2019 kemur fram að stofnunin telji skýrsluna í meginatriðum uppfylla skilyrði um framlagningu frummatsskýrslu, sbr. b. lið 24. gr. nýsamþykktra laga
um breytingu á lögum um fiskeldi.
Í millitíðinni, þ.e. 27. september 2018, hafði úrskurðarnefndin fellt úr gildi leyfi fyrir laxeldi í Tálknafirði og Patreksfirði. Alþingi brást við með því að veita leyfi til bráðabirgða og síðan voru samþykktar sumarið 2019 viðmiklar breytingar á fiskeldislögunum. Þessi atburðarrás hafði eðlilega áhrif á framvindu umsókna sem þá lágu fyrir um sjókvíaeldi.
Var ákveðið að umsóknir um leyfi til laxeldis færu eftir eldri lagaákvæðum ef frummatsskýrslu hefði verið lokið fyrir gildistöku nýju lagaákvæðanna. Skipulagsstofnun úrskurðaði 26. júní 2019 að umsókn Arctic Fish færi eftir eldri lögum. Það skiptir mál því annars væri umsóknin komin á byrjunarreit þrátt fyrir þriggja ára vinnu.
Skipulagsstofnun kærð
Þessa ársgömlu ákvörðun Skipulagsstofnunar hefur Landsamband veiðifélaga nú kært og krefst þess að hún verði ógilt og að Skipulagsstofnun verði gert að afgreiða umsóknina samkvæmt nýju lagaákvæðunum. Telur kærandi að frummatsskýrslan hafi ekki verið fullgild.
Kærufrestur er einn mánuður frá ákvörðun Skipulagsstofnunar, en kærandi heldur því fram að kærufrestur byrji þá fyrst að líða þegar kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun Skipulagsstofnunar eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Segir í kærunni að kærandi hafi fyrst vitað af ákvörðun Skipulagsstofnunar þann 25. maí 2020.
Kæran er dagsett 15. júní 2020.
Arctic Fish er ekki kært og virðist ekki eiga beina aðkomu að málinu.