Laxeldi: burðarþolsmat er 144.500 tonn

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Tíu hafsvæði við landið hafa verið burðarþolsmetin samkvæmt ákvæðum laga um fiskeldi. Samtals þola svæðin 144.500 tonna laxeldisframleiðsu á ári. Þar af er burðarþol svæða á Vestfjörðum 82.500 tonn.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávar- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþm.

Svæðin eru:

 

Ár Svæði Tonn
2015 Arnarfjörður 20.000
2015 Dýrafjörður 10.000
2015 Patreksfj og Tálknafj. 20.000
2016 Berufjörður 10.000
2016 Fáskrúðsfjörður 15.000
2016 Reyðarfjörður 20.000
2017 Ísafjarðardjúp 30.000
2017 Stöðvarfjörður 7.000
2018 Seyðisfjörður 10.000
2018 Önundarfjörður 2.500
144.500

 

Ekkert mat í tvö ár

Fram kemur í svarinu að ekkert svæði hefur verið burðarþolsmetið síðustu tvö ár og ennfremur að ekki er þess að vænta að önnur svæði verði metin til burðarþols. Samkvæmt lagabreytingum sem gerðar voru i fyrra fer ekki fram burðarþolsmat nema ráðherra ákveði það og segir í svarinu að hann hafi ekki tekið  ákvörðun um frekara burðarþolsmat. Þá er einnig ákvæði í lögunum sem gerir það óheimilt að stunda sjókvíaeldi nema fyrir liggi burðarþolsmat.

Kristján Þór Júlíusson hefur hins vegar óskað eftir umsögn sveitarfélaga við Djúp um  það hvort rétt sé að banna eða takmarka laxeldi í Jökulfjörðum. Er fyrirspurnin borin fram af því tilefni að unnið er að gerð strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði.

DEILA