Jakob Valgeir stækkar frystihúsið

Framundan eru framkvæmdir við frystihús Jakobs Valgeirs ehf í Bolungavík og er stefnt að því að þeim verði lokið fyrir lok ársins. Húsnæðið verður stækkað um 25 x 50 metra með einingum og bætt við lausfrystum og pressum.

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að framleiðslugeta frystihússins væri fullnýtt og það yrði að auka hana. Með þessum framkvæmdum eykst frystigetan um 4 tonn á klst. Jafnhliða verður lögð meiri áhersla á að ganga frá vörunni beint í neytendaumbúðir og flytja fiskafurðirnar  þannig á markað.

Árið 2018 varð 1,9 milljarða króna hagnaður af rekstrinum. Voru þá bókfærðar eignir 12 milljarðar króna og skuldir 8 milljarðar króna. Að meðaltali unnu 100 manns hjá fyrirtækinu.

DEILA