Íslensk bylting í álframleiðslu

Starfsfólk Arctus Metal ehf og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands ásamt forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

Frá því er greint á vef Nýsköpunarmiðstöðvarinnar að íslenska fyrirtækið Arctus Metals ehf. hafi í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands unnið að þróun álframleiðsluferils sem gefur frá sér súrefni í stað koltvísýrings.

Enginn koltvísýringur myndast í framleiðsluferlinu, eingöngu ál og súrefni. Ál með þessari nýju aðferð hefur þegar verið framleitt á tilraunastofu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og þar með staðfest framleiðsluferilinn. Verkefnið hefur frá 2016 notið rannsóknarstyrks fráTækniþróunarsjóði.

„Við erum búin að leysa allar helstu vísindalegu áskoranirnar eins og réttu efnin í bakskaut og forskaut, sem tærast ekki íraflausninni og leiða vel straum. Við höfum þróað heppilega samsetningu raflausnar sem leysir upp súrálið við 800 gráður í ál og súrefni. Eftir standa verkfræðilegar áskoranir við að skala upp framleiðsluker í fulla stærð“,  segir Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og stofnandi Arctus Metals ehf.

Jón Hjaltalín segir að á Íslandi sé framleitt umhverfisvænsta ál í heimi vegna endurnýjanlegra orkugjafa. Þrátt fyrir það losi íslensku álverin um þriðjung alls koltvísýrings í landinu þar sem þau nota kolaskaut. „Íslensk álver gefa frá sér um 1,6 milljónir tonna af koltvísýringi á ári. Ef öll álverin okkar tækju upp þessa nýju tækni myndum við minnka losun koltvísýrings á Íslandi um 30% og uppfylla þannig alþjóðlegar skuldbindingar okkar og gott betur en það. Álver á stærð við Ísal í Straumsvík mundi þannig með nýrri aðferð Arctus framleiða súrefni á borð við 500 ferkílómetra skóg.“

Jón Hjaltalín þakkar Nýsköpunarmiðstöð Íslands og þá sérstaklega efnaverkfræðingunum Guðmundi Gunnarssyni og Guðbjörgu Óskarsdóttur árangurinn sem náðst hefur. Þau hafa unnið að þessari þróun, auk fleiri sérfræðinga miðstöðvarinnar og að sögn Jóns hefur aðkoma þeirra skipt sköpum um að þessi hugmynd hafi orðið að veruleika.

Heildarlosun Íslands á koldíoxíði, sem fellur undir alþjóðasamninga, er um 5 milljónir tonna. Er þá ekki talin með losun Losun frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum og landnotkun.  Álframleiðsla á Íslandi er mikil og notað er rafmagn sem framleitt er með virkjun vatnsafls.

 

DEILA