Ísafjörður: Safnahúsið liggur undir skemmdum

Safnahúsið var byggt 1925 sem sjúkrahús. Guðjón Samúelsson hannaði húsið sem er mikil staðarprýði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alvarleg staða er komin upp í Safnahúsinu á Ísafirði. Í minnisblaði bæjarritara til bæjarráðs, sem lagt var fram í gær, segir að húsið sé að grotna niður og lagt er til að að strax í sumar verði hafist handa við að lagfæra frárennsli og dren í kringum húsið, fjarlægja beð og mold sem liggja upp við kjallaraveggi (og halda raka að veggjum) og setja upp rafmagnstengil úti við, og að gerð verði áætlun um endurbætur á húsinu innandyra og utanhúss, sem verði lokið í síðsta lagi á árinu 2021.

Í minnisblaðinu segir ennfremur að ítrekað flæði sé inn í kjallara hússins s.s. í
gegnum veggi og upp um brunn. Mikill leki varð fyrir nokkrum árum sem stórskemmdi innra byrði og gólf kjallara hússins. Í húsinu fer fram ýmiss safnastarfsemi og er þar nú til húsa bókasafnið á Ísafirði, héraðsskjalasafn, ljósmyndasafn og listasafn. „Í kjallara er stór hluti þessa safns geymt, og má ætla að við núverandi aðstæður liggi mörg gögn undir skemmdum, enda mikill raki og líklega mygla í kjallara.“

Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram.

DEILA