Ísafjarðarbær: vill burðarþolsmat og áhættumat fyrir Jökulfirði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi umsögn sína til Sjávarútvegsráðherra um hvort banna eða takmarka eigi fiskeldi í Jökulfjörðum. Bæjarstjórnin leggur áherslu á að öll gögn verði lögð á borðið, þ.m.t. áhættumat og burðarþol fjarðanna ásamt samráði við íbúa svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Þá segir bæjarstjórnin að sveitarfélögin við Djúp eigi mikilla hagsmuna að gæta bæði af verndun náttúru og fiskeldi og því mikilvægt að ákvörðun verði tekin að lokinni ítarlegri skoðun og samráði við íbúa.

Átta bæjarfulltrúar stóðu að samþykktinni en einn, Nanný Arna Guðmundsdóttir, sat hjá.

Ályktunin í heild:

„Vegna fyrirspurnar sjávarútvegsráðherra um afstöðu Ísafjarðarbæjar til þeirrar hugmyndar hvort banna eigi með reglugerð fiskeldi í Jökulfjörðum þá ber fyrst að þakka fyrir það að bærinn fái tækifæri til að lýsa afstöðu sinni í þessu efni.
Almennt séð hafa þau sveitarfélög og íbúar þar sem fiskeldi er fyrirhugað eða er til staðar of lítið vægi í umræðunni. Sem dæmi um það þá var nýverið lokað fyrir fiskeldi í innanverðu Ísafjarðardjúpi án þess að þau sveitarfélög sem eiga þar hagsmuna að gæta fengu að lýsa afstöðu sinni til þess. Sama átti við þegar að öllu Ísafjarðardjúpi var lokað fyrir laxeldi þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunnar Íslands var gefið út og þar með stöðvuð öll útgáfa leyfa til laxeldis í Ísafjarðardjúpi a.m.k. tímabundið.
Í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá árinu 2016 var lögð áhersla á að ítarleg vinna með íbúum, landeigendum og öðrum hagsmunaðaraðilum skuli fara fram áður en ákvörðun um fiskeldi í Jökulfjörðum verðu tekin en sú vinna hefur ekki farið fram enn og stendur því bókun bæjarráðs. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að öll gögn verði lögð á borðið, þ.m.t. áhættumat og burðarþol fjarðanna ásamt samráði við íbúa svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun. Það er alveg ljóst að sveitarfélögin við Djúp eiga mikilla hagsmuna að gæta bæði af verndun náttúru og fiskeldi. Því er mikilvægt að þessi ákvörðun verði ekki tekin í flýti heldur að undangenginni ítarlegri skoðun og samráðs og samtals við íbúa, eins og fram kemur í bókuninni frá árinu 2016.“

DEILA