Bæjarstjórn Bolungavíkurkaupstaðar hefur samþykkt að gera Helgu Guðmundsdóttur að heiðursborgara kaupstaðarins. Helga er annar heiðursborgarinn í bæjarfélaginu en Einar Guðfinnsson varð heiðursborgari 1974.
Greinargerð bæjarstjórnar:
Helga Guðmundsdóttir fæddist þann 17. maí árið 1917 á Blesastöðum á Skeiðum og ólst þar upp í hópi sextán systkina, en tvö þeirra létust í æsku. Æskuár hennar voru gleðirík í blómlegri sveit á tímum mikilla umbreytinga í samfélaginu. Ísland var að feta sig inn í nútímann, en aðstæður voru gjörólíkar því sem við þekkjum í dag. Vélvæðing hafði nýlega byrjað innreið sína jafnt til sjávar og sveita, samgöngur voru ólíkar því sem við þekkjum og tækifæri ungs fólks víðsfjarri því sem okkur þykja sjálfsögð.
Árið 1918 varð sögulegt í margvíslegu tilliti. Ísland varð fullvalda, fyrri heimsstyrjöldinni lauk, Kötlugos og frostavetur olli margvíslegum búsifjum og spænska veikin geisaði og olli dauða nær fimm hundruð manna þegar íbúafjöldi Íslands var einungis fjórðungur þess sem er í dag.
Helga hleypti heimdraganum eins og margt ungt fólk á þeim tíma og fór til Reykjavíkur. Þar kynntist hún mannsefni sínu, Bolvíkingnum Gunnari Hirti Halldórssyni, sjómanni og síðar verslunarmanni og útgerðarmanni, og flutti með honum til Bolungarvíkur árið 1952.
Það má nærri um geta að viðbrigðin hafa verið mikil. Hún, sem fóstruð var í láglendri, grösugri og blómlegri sveit og hafði dvalist í höfuðstaðnum, var komin vestur til Bolungarvíkur sem þá var nýlega komin í akvegasamband við næstu byggðir, en mátti teljast afskekkt eins og byggðirnar almennt á Vestfjörðum. Helga undi hag sínum vel og Bolvíkingar kunnu strax að meta þessa hógværu og hljóðlátu konu sem hvarvetna ávann sér traust og virðingu. Hér, umvafin bröttum fjöllum svo fjarri sunnlensku láglendi, hefur henni líkað vel. Það má því með sanni segja að þó hinar sunnlensku rætur hafi aldrei slitnað, þá hafi Helga orðið rótgróinn Bolvíkingur. Hún kunni vel að meta Víkina og það sem hún bauð upp á og Bolvíkingar unnu henni og virtu, enda fullt tilefni til. – Það má kannski segja að til hafi orðið gagnkvæm ást Bolvíkinga á Helgu og Helgu á Bolvíkingum.
Helga og Gunnar eignuðust þrjú börn. Agnar Halldór bónda og fyrrverandi oddvita á Miklabæ í Skagafirði, Kristínu kennara í Bolungarvík og Keflavík, en hún lést árið 2014 og Ósk kennara.
Helga var húsmóðir eins og þá tíðkaðist samkvæmt aldagamalli verkaskiptingu kvenna og karla, en hún vann einnig utan heimilis, meðal annars á Sjúkraskýlinu. Hvarvetna var hún vinsæl; jafnt af verkum sínum sem og af hlýju viðmóti og hjartagæsku sinni.
Það er óhætt að segja að Helga sé verðugur fulltrúi þeirra kynslóða sem ruddu brautina í uppbyggingu Bolungarvíkur frá miðri síðustu öld. Hún vann verk sín í hljóði eins og tíðkaðist meðal kvenna á þessum tíma, en framlag hennar og annarra kynsystra hennar var ómetanlegt og verður seint fullþakkað.
Helga er elsti íbúi Bolungarvíkur um þessar mundir og er fyrsti Bolvíkingurinn sem nær 100 ára aldri svo vitað sé. Veikindi hafa þó ekki gengið framhjá hennar garði því tvívegis fékk hún berkla en sigraðist á þeirri vá. Það er kunnara en frá þurfi að segja að Helga veiktist af hinum alvarlega COVID sjúkdómi í mars sl. og komst yfir veikindi sín. Hún uppskar ekki einvörðungu stolt og virðingu samborgara sinna hér í Bolungarvík, heldur fölskvalausa aðdáun landsmanna og einnig langt út fyrir landsteinana. Við Bolvíkingar erum stoltir af okkar konu, okkur finnst við öll eiga hlutdeild í henni Helgu.
Það er bæjarstjórn Bolungarvíkur mikill sómi að fá að útnefna Helgu Guðmundsdóttur sem heiðursborgara Bolungarvíkur. Hún er einstök öndvegismanneskja og er fyrirmyndar fulltrúi alls þess fólks sem hefur mótað Bolungarvík frá miðri síðustu öld og skilað okkur langt fram á veginn.