Byggðakvótinn auglýstur í Ísafjarðarbæ og Súðavík

Bátar í Hólmavíkurhöfn. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Fiskistofa hefur auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta á Tálknafirði, í Ísafjarðarbæ og Súðavík. Jafnhliða hafa reglur um úthlutun kvótans milli umsækjenda verið auglýstar. Umsóknarfrestur er til 4. júní.

Til umsóknar eru 429 þorskígildistonn á Tálknafirði, 239 tonn í Súðavík og 1.440 tonn í Ísafjarðarbæ. sem skiptist á 5 byggðarlög innan sveitarfélagsins. Til Þingeyrar er ráðstafað 365 þorskígildistonnum, 478 tonn til Flateyrar, 200 tonn til Suðureyrar, 207 tonn til Hnífsdals og 190 tonn til Ísafjarðar.

Í Ísafjarðarbæ gilda sérákvæði fyrir Flateyri að nokkru leyti. Þar verður ekki skylt að landa byggðakvóta sem er frá 2018/19 til vinnslu heldur verður heimilað að landa til sölu á fiskmarkaði í byggðarlaginu án vinnsluskyldu. Þá verður Ísafjarðarbæ heimilað að samþykkja að aflan­um sé landað innan sveitarfélags með áritun á umsókn viðkomandi um byggða­kvóta og gildir þessi heimild fyrir öll byggðarlögin innan sveitarfélagsins.

Vesturbyggð og sveitarfélögin í Strandasýslu hafa fyrir nokkru  gengið frá sínum reglum og Fiskistofa hefur þegar úthlutað byggðakvótanum á einstaka báta.

Á Brjánslæk voru 30 þorskígildistonn til umsóknar en engin umsókn barst. Á Bíldudal skiptast 101 tonn milli tveggja báta. Fönix BA 123 fékk 65.338 kg og Agnar BA 125 35.662 kg.

Í Árneshreppi skiptust 15 tonn milli 5 báta. Í Kaldrananeshreppi skiptast 76 tonn milli 9 báta og á Hólmavík deildust 148 tonn á 12 báta.

Til byggðakvóta er úthlutað á yfirstandandi fiskeiðiári 2019/20 5.375 þorskílgistonnum auk heimilda frá fyrra ári sem var óráðstafað 1.404 tonnum. Samtals verður útdeilt 6.855 þorskígildistonnum á landinu öllu.

DEILA