Aðalskoðun kannar um þessar mundir hvort grundvöllur sé fyrir því að fyrirtækið heimsæki Vestfirði reglulega með færanlega skoðunarstöð til að auka fjölbreytni og samkeppni í bifreiðaskoðunum fyrir vestan, en fjöldi fyrirspurna um þjónustuna hefur borist frá Vestfirðingum.
„Við ætlum að byrja á að koma með skoðunarstöðina vestur og kanna áhuga fólks á þjónustunni. Ef vel tekst til myndum við vilja koma að minnsta kosti tvisvar á ári vestur sem þýðir að við gætum dekkað allt árið í skoðunum“ segir Ómar Pálmason, eigandi og framkvæmdastjóri Aðalskoðunar, en hægt er að færa ökutæki til skoðunar allt að 6 mánuðum fyrr en skoðunarmánuðurinn segir til um. Skoðunarstöðin tekur ökutæki allt að 3,5 tonnum að heildarþyngd og er hugmynd Aðalskoðunar að bjóða þjónustuna á tveimur tímabilum, í mars/apríl og svo í september.
„Við vonumst til að sjá sem flesta Vestfirðinga og ég hvet fólk eindregið til að koma og skoða stöðina okkar sem er fullkomnasta skoðunarstöð landsins“ bætir Ómar við.
Hægt er að panta tíma í skoðun á netinu á slóðinni https://adalskodun.is/faeranleg-skodunarstod/ eða hringja í síma 590-6900.