106 milljóna viðsnúningur í rekstri Vesturbyggðar

Mikil vinna hefur verið lögð í að hagræða í rekstri sveitarfélagsins en það var álit bæjarstjórnar að það væri nauðsynlegt vegna stöðunnar. Starfsfólk sveitarfélagsins á þakkir skyldar fyrir vel unnin störf við erfiðar kringumstæður. Fulltrúar Nýrrar-Sýnar í Vesturbyggð eru ánægðir með þann mikla viðsnúning sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins.

Ársreikningur Vesturbyggðar fyrir árið 2019 sýnir að rekstrartekjur A og B hluta bæjarsjóðs voru 1.546 millj. kr., þar af voru 1.282 millj. kr. vegna A hluta. Samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta bæjarsjóðs var rekstrarniðurstaðan jákvæð um 10 millj. kr. en í fjárhagsáætlun hafði verið gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 27 þúsund krónur. Rekstrarafkoma ársins 2018 var neikvæð um 96 milljónir og batnar því um 106 milljónir á milli ára. Skuldaviðmið var 105% í árslok 2019 og hafði lækkað um 4% frá árinu 2018 sem er mjög ásættanlegt.

Í apríl 2019 staðfesti bæjarstjórn nýtt skipurit þar sem skerpt var á verkferlum í starfsemi Vesturbyggðar og hún flokkuð í: fjármála- og stjórnsýslusvið, fjölskyldusvið, umhverfis- og framkvæmdasvið, starfssvið hafnarstjóra, starfssvið byggingafulltrúa og starfssvið slökkviliðsstjóra.  Þær breytingar hafa nú þegar skilað miklum árangri bæði í fjármálum og starfsháttum sveitarfélagsins.

Mikil óvissa hefur skapast hvað varðar tekjur og gjöld sveitarfélagsins vegna Covid-19 og því enn mikilvægara að tekist hefur að ná betri tökum á rekstri Vesturbyggðar.

Guðrún Anna Finnbogadóttir

DEILA