Vegur um Veiðileysuháls kominn í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur auglýst tillögu að mati á umhverfisáhrifum af nýjum vegi yfir Veiðileysuháls í Árneshreppi milli Veiðileysufjarðar og Reykjarfjarðar.

Framkvæmdin felur í sér nýjan og endurbyggðan veg á hluta Strandavegar (643) sem verður 11,8 km langur. Hann verður lagður í staðinn fyrir 11,6 km langan veg, sem hefst tæplega 0,6 km austan við ána Kráku í Veiðileysufirði. Frá Kráku liggur vegurinn upp á Veiðileysuháls og fer hæst í 250 m y.s. Hann liggur þaðan niður brekkur í átt að Reykjarfirði og svo í neðanverðum bröttum hlíðum fjarðarins að Djúpuvík. Vegurinn liggur ofan byggðarinnar í Djúpuvík og um Kjósarhöfða þar sem hann fer framhjá eyðibýlinu Kjós. Vegurinn endar rúmlega 0,2 km vestan Kjósarár í Kjósarvík.

Í samþykktri fimm ára vegáætlun 2019-2023 er 400 millj. kr. fjárveiting til Strandavegar um Veiðileysuháls sem skiptist til helminga á árin 2022 og 2023. Í næstu áætlun sem gildir fyrir 2024-2028 eru 300 milljónir króna til verksins. Heildarkostnaður er áætlaður 700 milljónir króna.

Í frummatsskýrslu segir að núverandi Strandavegur um Veiðileysuháls uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar og því ekki talið forsvaranlegt að þjónusta hann að vetrarlagi. Vegna snjóalaga kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um hálsinn.
Vegna umferðaröryggis kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Djúpuvík.

Í umhverfisskýrslu Aðalskipulags Árneshrepps 2005-2025 voru kynntar tvær veglínur, veglína 703 sem liggur úti í sjó við Djúpuvík og veglína 602 sem liggur fyrir Kamb.

Veglína 602 kemur ekki til greina vegna lengingar leiðarinnar, kostnaðar og ofanflóðahættu. Veglína 703 myndi hafa mjög neikvæð áhrif á staðarandann í Djúpuvík. Því var lega hennar endurskoðuð.

Niðurstaða þess er að aðeins ein veglína Strandavegar (643) milli Kráku og Kjósarár er hér kynnt til mats á umhverfisáhrifum, veglína 708 sem liggur ofan byggðarinnar í Djúpuvík.

Frestur er til 18. maí að gera athugasemdir til Skipulagsstofnunar. Það þeim tíma loknum tekur Skipulagsstofnun ákvörðun um framkvæmdina. Niðurstaða Skipulagsstofnunar getur verið á þrjá vegu segir í matsskýrslunni: Fallist á tillögu framkvæmdaraðila, fallist á tillögu framkvæmdaaðila með athugasemdum, eða tillögunni er synjað.

 

DEILA