Vegagerðin mótmælir ásökunum um þvingun

Vegagerðin mótmælir ásökunum um þvingun við leiðaval í Gufudalssveit sem fram hafa komið frá þeim sem kærðu til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál framkvæmdaleyfi það sem Reykhólahreppur veitti Vegagerðinni fyrir Þ-H leiðinni um Gufudalssveit.

Kærendur eru annars vegar Landvernd og hins vegar landeigendur Hallsteinsness og Grafar. Landvernd segir í sinni kæru að  Vegagerðin hafi beitt ólögmætum þvingunum gegn Reykhólahrepp til að ná sínu í gegn á sveitarstjórnarstigi.

Þvinganirnar fólust í því, samkvæmt kæru Landverndar, að neita alfarið að leggja veginn um aðra leið en um Teigsskóg nema að Reykhólahreppur greiddi þann kostnað sem nemur mismuninum á þeirri leið og annarri leið sem yrði fyrir valinu. Þar sem Reykhólahreppur er lítið sveitarfélag og mátti öllum vera ljóst að það gæti ekki staðið undir slíkum kostnaði segir Landvernd.

Vegagerðin: engin þvingun

Um þetta segir Vegagerðin í yfirlýsingu um málið:

„Þessi staðhæfing hefur verið sett fram áður en er alveg jafn ósönn nú og þá. Vegagerðin hefur engum þvingunum beitt en hefur hinsvegar talið sér skylt til að leggja allt fyrir hreppsnefnd Reykhólahrepps og allan almenning varðandi stöðu mála á þessu svæði. Vegagerðin hefur ekki fjárveitingavald en til þessa verks hafa verið teknir frá einir 7 milljarðar króna miðað við samgönguáætlun sem nu liggur fyrir Alþingi.

Leið fyrir Reykjanes og yfir utanverðan Þorskafjörð eða leið með jarðgöngum undir Hjallaháls yrði mörgum milljörðum króna dýrari lausn. Það fé hefur ekki verið í sjónmáli og hefur Vegagerðin bent heimamönnum á að í slíku tilviki yrðu þeir að ræða við stjórnmálamenn og þá sem fjárveitingavaldið hafa.

Engin þvingun felst í slíkri upplýsingu um stöðu mála, heldur raunsætt mat á stöðunni. Þess má geta að mismunur á kostnaði þessara mismunandi leiða nemur sömu upphæð og það kostar að gera veg um Dynjandisheiði að heilsársvegi.

Vegagerðin mun halda áfram að vinna að vegagerðinni um Gufudalssveit og vonast til þess að því verki ljúki farsællega á næstu árum vegfarendum öllum til hagsbóta.“

 

DEILA