Vegagerðin: átak í umferðaröryggi

Heitu pottarnir eru við þjóðveginn í þorpinu á Drangsnesi. Mynd: Ingólfur A. Haraldsson.

Alls verður 650 milljónum króna varið til verkefna Vegagerðarinnar í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda í ár. Þar af var 150 milljónum úthlutað í tímabundnu fjárfestingarátaki ríkisins vegna COVID-19. Verkefnin eru fjölmörg og fjölbreytt og miða öll að því að auka öryggi vegfarenda. Í fyrra var 500 milljónum króna varið þessa verkefnis og eru 150 mkr viðbót sem tengd er fjárfestingarátakinu í ár.

Fjölmörg verkefni eru á lista Vegagerðarinnar og svæði Vegagerðarinnar bera hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd umferðaröryggisaðgerðanna. Tekið er fram að listinn sé ekki tæmandi.

Á listanum eru þrjár framkvæmdir á Vestfjörðum. Það eru

  • Djúpvegur vestan Bolungarvíkurganga, lagfæringar á umhverfi til að draga úr snjókófi við gangamunna
  • Drangsnesvegur, uppsetning vegriðs
  • Drangsnesvegur um Drangsnes, hraðahindrandi aðgerðir

 

Varðandi Bolungavíkurgöng segir í útdrætti Vegagerðarinnar að óhöpp hafi orðið í kófi við gangamunnann. Tillaga er um að setja brotfláa á kaflann millli munnans og Ósár. Áætlaður kostnaður er um 10 milljónir króna.

Hugmynd er að setja upp vegrið við Vörðukleif á Drangsnesvegi sem gæti kostað 6 milljónir króna og hraðahindrandi aðgerðir yrðu viðvörunarskilti við innkomu í bæinn að vestan og athugað að setja upp bráðabirgðahraðahindranir yfir sumartímann. Kostaður við það er áætlaður 2 milljónir króna.

 

 

DEILA