Umhverfisráðuneytið: Ísafjarðarhöfn var ekki tilbúin

Skemmtiferðaskipið Oceanic við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í svari upplýsingafulltrúa Umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Bæjarins besta um úthlutun á 210 m.kr. styrk ríkisins til orkuskipta í höfnum kemur fram að nýta þurfi styrkinn innan árs og að Ísafjarðarhöfn hafi ekki verið tilbúin með sitt verkefni innan þess tímaramma.

Ísafjarðarhöfn sótti um styrk en fékk ekki. Til Faxaflóahafna voru veittar 100 milljónir króna og til Akureyrarhafnar runnu 43,8 m.kr.

„Þá var skilyrði fyrir styrkveitingu að verkefni sem hlytu styrk myndu hefjast eigi síðar en 1. september 2020 og vera lokið fyrir 1. apríl 2021 en verkefni Ísafjarðar féll utan þess tímaramma.“ segir í svarinu.

Þá segir ennfremur að óskað hafi verið  eftir skilum á ákveðnu formi til að kalla eftir ákveðnum upplýsingum „en Ísafjörður skilaði slíkum upplýsingum ekki innan tilskilins tímaramma.“

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að kostnaður við að koma upp búnaði til þess að skip gætu tekið rafmagn úr landi væri af slíkri stærðargráðu að það væri ofviða höfninni og til þess að koma því á þyrfti ríkið að koma að fjármögnun þess. Framundan væru miklar framkvæmdir á Sundabakkasvæðinu og eðlilegt að huga strax að því að gera orkuskiptin möguleg.

DEILA