Snjóflóðið á Flateyri: kostnaður 39 m.kr.

Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kostnaður Ísafjarðarbæjar vegna snjóðflóðsins er talinn verða 39 milljónir króna. Þetta kemur fram í bréfi bæjarins til forsætisráðuneytisins.

Þegar tilfallinn kostnaður er 13,3 milljónir króna. Stærsti liðurinn er flutningur, björgunarsveitir, gisting o.fl. 4,4 m.kr, þá er snjómokstur 3,5 m.kr. og kostnaður við höfnina, kranavinna, mastur, flotbryggja o.fl. 3,3 m.kr.

Þá er áætlaður kostnaður næstu vikurnar 25,6 milljónir króna. Þar er stærsti liðurinn  hreinsunarstarf á hafnarsvæðinu 9,5 milljónir króna. Hreinsunarstarf annars staðar í bænum er talið kosta 6,5 milljónir króna. Kostnaður við förgun Orra ÍS er talinn verða 4 milljónir króna. Viðgerðir og hreinsun er liður upp á 3,9 milljónir króna og loks sálfræðiþjónusta 860 þúsund krónur.

Í bréfinu leggur Ísafjarðarbær áherslu á áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefnið.

DEILA