Regnbogasilungur: tillaga að rekstrarleyfi í Djúpinu

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf vegna sjókvíaeldis á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd ( Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða stækkun á eldra leyfi úr  200 tonnum af regnbogasilungi og lax upp í 5.300 tonn af regnbogasilungi. Leyfið er til fjögurra ára.

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 22. júní 2020.

Starfsleyfið var gefið út 1. apríl 2015.

Það var þann 20. desember 2013 sem Skipulagsstofnun barst tilkynning frá Dýrfiski hf. um fyrirhugaða aukningu á sjókvíaeldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Stofnunin leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunarinnar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu-siglingasvið og Umhverfisstofnunar. Umsagnir bárust á árinu 2014 auk viðbótargagna frá  framkvæmdaaðila.

Í greinargerð framkvæmdaraðila kemur fram að samkvæmt LENKA viðtakamatinu megi gera ráð fyrir að burðarþol Ísafjarðardjúps og innfjarða sé um 43.000 tonn. Hafrannsóknastofnun véfengir ekki niðurstöður LENKA matsins, en telur nauðsynlegt að gert verði nákvæmara burðarþolsmat vegna vaxandi áhuga á fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og innfjörðum þess.

Skipulagsstofnun: innan burðarþols og ekki í umhverfismat

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá mars 2014 segir að stofnuninni sé kunnugt um að „til eru reiknilíkön sem spá betur fyrir um burðargetu eldissvæða í sjó en LENKA viðtakamat. Einnig hefur verið bent á að burðargeta hafsvæða sé mun meiri en LENKA gefi til kynna því tuttugu ár eru síðan viðtakamatið var sett fram og frá þeim tíma hafi endurbættar eldisaðferðir leitt til betri fóðurnýtingar og þar af leiðir minni losunar úrgangsefna frá fiskeldi. Skipulagsstofnun telur einmitt þess vegna að LENKA gefi varfærið mat á burðargetu fjarða og þar af leiðandi séu minni líkur til þess að burðarþol eldissvæða sé ofmetið.“

Er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framleiðsluaukning á regnbogasilungi í sjókvíum Dýrfisks hf. í Ísafjarðardjúpi sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningu hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. „Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“

 

 

 

 

 

DEILA