OV: greiðir ekki arð af hagnaði – meira til framkvæmda

Aðalfundur Orkubús Vestfjarða var haldinn í gær. Að þessu sinni var fundurinn eingöngu með fjarfundarsniði.  Hefð er fyrir því hjá Orkubúinu að halda opinn ársfund sama dag og aðalfundurinn fer fram þar sem ársreikningur er kynntur og farið er yfir það helsta sem er á döfinni hjá fyrirtækinu. Stjórn félagsins ákvað að stefna ekki til slíks fundar við núverandi aðstæður en huga að slíkum fundi síðar á árinu.

200 milljóna króna hagnaður

Orkubú Vestfjarða hagnaðist um 200 milljónir króna á síðasta ári.  Heildarveltan var á árinu 2019 var 2.892 milljónir króna og jókst um 1,8% á milli ára.  Hagnaður lækkaði um 44 milljónir á milli ára.  Aukinn rekstrarkostnað má aðallega rekja til meiri raforkukaupa frá öðrum framleiðendum, tjóna í veitukerfi, bilana í orkuverum og hærra olíuverðs, en það hefur m.a. áhrif á kostnað við rekstur olíukatla sem eru varaafl fyrir rafskautakatla hitaveitna Orkubúsins.  Rekstrargjöldin hækkuðu samtals um 7% á milli ára og lækkaði því EBIDTA um 94 milljónir og var 627 milljónir á árinu.  Á móti kom að fjármagnsgjöld lækkuðu um 34 milljónir.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri var inntur eftir mati hans á afkomu síðasta árs:

„Við teljum að afkoma ársins á síðasta ári sé viðunandi, að teknu tilliti til nokkurra óviðráðanlegra þátta sem höfðu neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna.  Framundan eru næg verkefni við áframhaldandi uppbyggingu dreifikerfisins á Vestfjörðum og frekari nýtingu jarðhita.“

Enginn arður greiddur til ríkisins 

Undanfarin ár hefur Orkubúið greitt um 60 milljónir króna í arð til ríkisins, eiganda fyrirtækisins en stjórnin samþykkti á fundinum í gær að greiða ekki arð að þessu sinni.  Verður það til þess að Orkubúið hefur sem því nemur meira fé til framkvæmda á þessu ári.

Orkubúið hefur á undanförnum árum verið í miklum fjárfestingum og fjárfesti í varanlegum rekstrarfjármunum að fjárhæð 698 milljónir króna á árinu 2019. Handbært fé frá rekstri var litlu minna en varið var til fjárfestinga.  Þrátt fyrir að hafa aukið skuldir, er eiginfjárstaða Orkubúsins sterk auk þess sem það hefur traustan tekjugrunn.  Eigið fé er um 6,2 milljarðar króna. Fjárfestingarnar sem ráðist hefur verið í eru mikilvægur þáttur í að auka afhendingaröryggi og tekjur félagsins til frambúðar.

Heildarorkuöflun Orkubúsins var 266 GWst, þar af var orkuöflun vegna raforkusölu 163 GWst, en 103 GWst voru vegna hitaveitusölu.  Eigin vinnsla vegna raforkusölu var 55,5% en 18,5% vegna hitaveitusölu.  Eigin raforkuframleiðsla Orkubúsins var 90 GWst á síðasta ári og minnkaði um 5 GWst.  Framleiðslan var svipuð og hún var 2016 eða um 5% yfir meðaltali síðustu 10 ára.  Framleiðsla bændavirkjana minnkaði um 2%.
Framleiðsla raforku í varaaflsstöðvum Orkubúsins minnkaði um þriðjung úr 604 MWst í 401 MWst.

Á árinu 2020 er fyrirhugað að framkvæma fyrir ríflega 600 milljónir króna.

Formaður stjórnar Orkubúsins er Illug Gunnarsson. Arðrir stjórnarmenn eru Friðbjörg Matthíasdóttir, Eiríkur Valdimarsson, Elsa Kristjánsdóttir og Gísli Jón Kristjánsson.

DEILA