Ísland ljóstengt: viðbótarúthlutun 400 m.kr.

Ljósmynd: Snerpa – Ljósleiðari og þriggja fasa heimtaug plægð niður við Húsatún í Haukadal sumarið 2019.

Ákveðið hefur verið að bæta 400 milljónum króna við fjárveitingu til framkvæmda við ljósleiðaravæðingu í dreifbýli á vegum Ísland ljóstengt á þessu ári. Fjárveitingin er liður í fjárfestingarátaki stjórnvalda til að sporna við samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Markmiðið er sem fyrr að nær öll heimili og fyrirtæki í dreifbýli hafi aðgang að ljósleiðaratengingu og að því verkefni ljúki árið 2021.

Þessi aukaúthlutun er einkum hugsuð vegna styrkhæfra staða sem eftir eru í sveitarfélögum sem þegar uppfylla tilteknar formkröfur frá fyrri úthlutunum í verkefninu Ísland ljóstengt. Gengið er út frá því að verkefni sem ekki hljóta styrk í aukaúthlutun árinu 2020 komi til álita að hljóta styrk árið 2021.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi á fundi sínum fyrr í vikunni hugmyndir að umsókn um framkvæmdir innan sveitarfélagsins. Lagður var fram tölvupóstur frá Birni Davíðssyni, framkvæmdastjóra Snerpu, dags. 15. maí 2020, vegna umsóknar Ísafjarðarbæjar.

Að sögn Björns Davíðssonar standa vonir til þess að styrkur fáist úr Fjarskiptasjóði vegna Valþjófsdals og Ingjaldssands að þessu sinni en einnig verður sótt um styrk vegna ljósleiðara í fyrirhugað fjarskiptahús á Gemlufallsheiði. Fjarskiptahúsið yrði rekið af Neyðarlínunni en á um fjögurra kílómetra kafla efst á heiðinni er fjarskiptasambandi verulega áfátt og næst t.d. ekki símasamband af kaflanum en þar verða jafnvel erfiðustu skilyrðin í vetrarfærð innan sveitarfélagsins. Sambandið á Ingjaldssand myndi jafnframt nýtast fyrir nýtt fjarskiptahús á fjallinu Barða þegar það verður byggt en gloppur eru í fjarskiptasambandi skipa og báta frá Dýrafirði norður undir Sauðanes sem fjarskiptahús á Barða myndi bæta úr.

DEILA