Hvítasunna

Hvítasunnan er hátíð heilags anda.  Á þessum degi fyrir hartnær tvö þúsund árum kom heilagur andi yfir postulana.  Þessu er lýst eins og hvin af himni ofan, líkt og aðdynjanda sterkviðris segir í eldri biblíuþýðingu.  Á hvítasunnudag heyrðist hljómur heilags anda.  Postularnir töluðu tungum og lofsungu stórvirki Guðs á móðurmálum nærstaddra.  Þetta var fæðingarhátíð kristinnar kirkju, upphaf þess að fólk fór að safnast saman og lofa Guð.

 

Kristni og tónlist, sköpun og músík, heilagur andi og söngur, þetta á allt saman líkt og mörg hljóðfæri í einni synfóníu.

Samkvæmt gamalli helgisögn þá skapaði Guð heiminn með því að laða hann fram með söng. Sköpunarverkið er guðdómleg tónlist, þakkaróður, andvarp Drottins. Og tónlistin er tungumál englanna. Mannssálin hefur aldrei getað með öllu gleymt hinum guðdómlega söng, laginu eilífa. Einhvers staðar djúpt í sál okkar ómar þessi tónlist og minnir á uppruna mannsandans.  Þetta er hinn eini sanni tónn, sem Halldór Kiljan Laxness skrifar um í Brekkukotsannál.  Þegar sálin er snortin af návist Guðs, þá brýst hann fram þessi söngur.  Þess vegna getur kirkjan og trúariðkunin aldrei verið án söngs og tónlistar.

Það er andi Guðs, sem vekur trúna og kærleikann í hjörtum trúaðra.  Það er andinn, sem fær okkur til að sjá systur og bróður í þurfandi nágranna eða fátæku barni, sem birtist á skjánum hjá okkur.  Og þegar okkur líður illa þá sendir Guð engla sína. sem

hvísla huggunarorðum í eyru sálarinnar og snúa þannig harmljóðum lífsins í gleðisöng.

Það er heilagur andi, sem býr til alla sanna list.  Það er hann, sem snertir við sálum mannanna og fær hjörtu okkar til að slá í takt.  Andinn skapar hið góða og fagra í heimi okkar. Góðvild og fegurð í lífi okkar er verk Guðs anda.

Gleðilega hvítasunnu,  gleðilega hátíð heilags anda!

Magnús Erlingsson.

DEILA