Háskólasetur: Þróun íslenskra strandskóga

Kerstin Frank ver meistaraprófsritgerð sína um þróun íslenskra strandskóga.

Mánudaginn 11. maí kl. 17:00 mun Kerstin Frank verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Meistaraprófsvörnin er opin almenningin en vegna samkomubanns af völdum COVID-19 verður vörnin aðgengileg á netinu á YouTube rás Háskólaseturs.

Ritgerðin ber titilinn „From Coast to Forest – Development of Icelandic Coastal Forests, their Linkage to Aquatic Systems and the Perspective of Locals on them“ Nánari upplýsingar má nálgast í úrdrætti á ensku.

Fyrsti leiðbeinandi verkefnisins er Daniel Govoni, doktorsnemi við Háskólann á Hólum, fagstjóri Climate Change in the Arctic annarnáms School for International Training á Íslandi og kennari við Háskólasetur Vestfjarða. Annar leiðbeinandi er dr. Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við Háskólann á Akureyri. Prófdómari er dr. Jill Welter, fagstjóri meistaranámsins Climate Change and Global Sustainability hjá School for International Training.

Útdráttur

Á Íslandi, í nánast skóglausu landi, er talsverð áhersla lögð á að endurheimta töpuð skógarvistkerfi en skortur á rannsóknum um samspil manna og skóga er umtalsverður. Í þessu meistaraprófsverkefni voru tveir skógarreitir á Vestfjörðum lagðir til grundvallar rannsóknum á skógarvistkerfinu sjálfu sem og rannsóknum á viðhorfi almennings til skógræktar á svæðinu. Fram fóru hefðbundnar skógmælingar á tveimur 15 ára skógarreitum í Tálknafirði til að leggja mat á kolefnsibindingu þeirra. Enn fremur voru áhrif skógar á ferskvatnskerfi skoðuð með því að mæla styrk uppleysts kolefnis (DOC) og köfnunarefnis (TDN) í lækjum sem runnu til sjávar annars vegar í gegnum skógarvistkerfi og hins vegar í gegnum skóglaust land.

Niðurstöðurnar sýndu umtalsverðan vöxt í trjánum frá því að síðasta úttekt var gerð, árð 2009. Hraði kolefnisbindingar í reitunum var hins vegar fremur lítill eða um 0,55 t og 0,74 t CO2 á hektara á ári. Engin marktækur munur mældist á styrk uppleysts kolefnis og köfnunarefnis í lækjum sem runnu annars vegar í gegnum skógarvistkerfi og hins vegar í gegnum skóglaust svæði.

DEILA